Landsréttur staðfesti í gær að Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir hafi brotið lög með því að mótmæla brottvísun nígeríska hælisleitandans Eze Okafor um borð í flugvél Icelandair árið 2016. Héraðsdómur hafði dæmt þær í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna málsins, en Landsréttur taldi rétt að fresta ákvörðun um refsingu og fella hana niður að tveimur árum liðnum haldi þær skilorð.
Í málinu var tekist á um hvort þeim hafi verið heimilt að mótmæla um borð í flugvélinni og hvort það hafi falið í sér stjórnarskrárbundinn rétt þeirra til tjáningar.
Í dómi Landsréttar segir að þótt mótmæli Jórunnar og Ragnheiðar hafi ótvírætt talist til tjáningar í skilningi stjórnarskrárinnar og að slík mómæli væru aðeins takmarkaðar samkvæmt undantekningum sem koma fram í 73. grein stjórnarskrárinnar. Þar segir: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
Landsréttur vísar næst til laga um loftferðir (lög 60/1998), en þar er segir í 42. Grein að „Farþegum er skylt að fara eftir fyrirmælum flugstjóra eða annarra flugverja um góða hegðun og reglu í loftfari.“ Einnig er vísað til 106. greinar almennra hegningarlaga um brot gegn valdstjórninni, en þar er meðal annars kveðið á um að hver sem tálmi því að lögreglan gegni skyldustörfum skuli sæta sektum eða fangelsi. Eru þær fundnar sekar um brot á báðum lögum
Í dóminum segir að þeim Jórunni og Ragnheiði hafi ekki verið meinað að mótmæla endursendingu Okafor, heldur eingöngu bannað það í „flugvélinni með þeim hætti sem þær gerðu.“
Við ákvörðun refsingar horfir Landsréttur til þess að fyrir Jórunni og Ragnheiði hafi vakað að standa vörð um líf og heilsu Okafor, „sem þær álitu í hættu, og það hafi þær gert með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla þótt þær hafi í þessu tilviki gengið lengra en heimilt var.“
Þar sem hvorug hefur áður hlotið refsingu og verulegur dráttur varð á málinu var talið rétt að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið í tvö ár.
Í tilkynningu sem Jórunn og Ragnheiður sendu fjölmiðlum þegar þær ákváðu að áfrýja málinu í fyrra sögðu þær dóminn hættulegan tjáningarfrelsi og að samstaða sé ekki glæpur.