„Hemur ekki þessa skepnu með góðmennsku“

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE.
Kári Stefánsson, forstjóri ÍE. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Víðir og Þórólfur eru alveg óskaplega góðir menn, en þeir mega ekki kikna undan löngun til að flytja góðar fréttir. Það eru engar góðar fréttir í þessum faraldri, veiran er úti um allt og gýs upp um leið og við slöppum af,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE).

Segir hann að mikil mistök hafi verið gerð þegar almenningi var tjáð að létt yrði á takmörkunum sem nú eru í gildi vegna veirunnar. 

„Það var óskynsamlegt af þeim að segja fyrir tveimur vikum að einhverjum takmörkunum yrði aflétt eftir viku. Um leið og þú segir svona verðlaunarðu fólk og það fer að hegða sér í samræmi við það,“ segir Kári og bætir við að veiran verði ekki hamin með góðmennskunni einni. 

„Ég held að okkur hafi tekist vel til með margt, en eitt af því sem hefur ekki verið gert vel er að höndla væntingar. Maður hemur ekki þessa skepnu með góðmennsku. Þeir sem stýra þessu verða að bíta í það súra epli að það þarf að stýra þessu af fantaskap.“

Hægt að halda þessu í skefjum

21 smit greind­ist inn­an­lands í gær. Af þeim voru 13 í sótt­kví, en átta utan sótt­kví­ar. Að sögn Kára er útlitið ekki gott. „Þetta lítur ekki vel út. Fólk var farið að slaka á og nú sitjum við uppi með eitthvað sem lítur eins og bylgja sem gæti verið að rísa.“

Aðspurður segist hann vilja óbreyttar reglur áfram. Þá sé nauðsynlegt að halda áfram með harðar aðgerðir. „Við verðum að gyrða okkur í brók og fylgja þessum reglum. Ég hef fulla trú á því að við getum haldið henni í skefjum svo lengi sem menn eru ekki að tjá sig um afléttingar. Það er ekki nóg að setja reglur heldur verða skilaboðin að vera í samræmi við þær.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert