„Hver var þetta eiginlega?“

Kristján Hrafn Guðmundsson rithöfundur.
Kristján Hrafn Guðmundsson rithöfundur. Árni Sæberg

„Þetta eru senur úr samtímanum, en ég lauma líka að pælingum fyrir lesendur til að kjamsa á sem kannski mætti kalla tímalausar. Flestar sögurnar gætu hafa gerst á síðustu fimm árum, utan ein sem gerist að mestu snemma á þessari öld. Ég er líka að fjalla um hluti sem ýmsir geta tengt við og legg mig eftir kómískum þráðum sem þar geta leynst, eins og í samræðum við nýjan vinnufélaga, klaufalegum samskiptum þegar börn eru sótt á leikskóla, húsaskipti við fólk í útlöndum er eitt af sögusviðunum og svo framvegis. Sögurnar eru þannig allar í raunsæisstíl nema sú síðasta sem stingur aðeins í stúf.“

Þetta segir Kristján Hrafn Guðmundsson, bókmenntafræðingur og kennari, sem hefur sent frá sér sína fyrstu bók, sagnasafnið Þrír skilnaðir og jarðarför. Hann sækir innblástur í ýmis störf sem hann hefur sinnt og kynlega kvisti sem á veginum hafa orðið.

Spurður um persónusköpun kveðst Kristján Hrafn alltaf hafa haft gaman af fólki sem sumir myndu ef til vill segja að væri öðruvísi eða jafnvel skrýtnar skrúfur. „Eftir að ég kynntist konunni minni, þegar ég var 26 ára, hittum við kannski vini og kunningja á förnum vegi sem ég átti svo langt spjall við. Endurtekið fór ég svo að heyra smá undrunartón hjá henni með spurningum á borð við „Hver var þetta eiginlega?“ varð það til þess að ég áttaði mig á því að ég hef mjög gaman af því að vera í félagsskap fólks sem telst ekki vera innan normsins að öllu leyti – er jafnvel „á rófinu“. Svipaða sögu er að segja úr kennslunni. Ég hef verið að kenna unglingum í tíu ár og mér þykir oftast dásamlegt að spjalla við þá, ekki síst unglinga sem sjá heiminn ekki eins og aðrir.“

Deilt bíl með allskonar týpum

Einnig sitja í Kristjáni Hrafni ýmsar týpur sem hann hefur kynnst við störf sín á lífsleiðinni en hann hefur komið víða við, svo sem í járnabindingum, lögreglunni, blaðamennsku og keyrt leigubíl, auk kennslunnar. „Ég hef deilt kaffistofu og bíl með alls konar týpum og það gefur manni mikið. Það er til dæmis ákveðin lífsreynsla að sitja í málmdollu um stund með mönnum stútfullum af kókaíni eða hjónum sem voru að koma úr matarboði hjá öðrum hjónum. Þau kveðja gestgjafa sína gjarnan með virktum úti á hlaði en í leigubílnum heyrir maður stundum hvað þeim finnst í raun og veru um þá.“

– Ættu ekki allir rithöfundar að prófa að keyra leigubíl?

„Jú, það held ég,“ svarar hann hlæjandi. „Er Jón Gnarr ekki ennþá að fiska upp úr þeim fjársjóði eftir sín leigubílstjóraár?“

Nánar er rætt við Kristján Hrafn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert