Jólaþorpið á Thorsplani í Hafnarfirði var opnað í dag. Fagurlega skreyttum jólahúsum hefur verið komið fyrir, en þorpið verður opið allar helgar á aðventunni. Þetta kemur fram á vef Hafnarfjarðarbæjar.
Í ljósi ástandsins og takmarkana verður engin skipulögð dagskrá á vegum jólaþorpsins þessa aðventuna. Hins vegar verður stemningin hlýleg og huggleg, en á sama tíma lágstemmd. Þá getur fólk nálgast spennandi gjafavöru, sælkerakrásir og handverk í Jólaþorpinu.
Jólaþorpið hefur verið á Thorsplani í Hafnarfirði frá árinu 2003 og hefur verið afar vinsælt bæði meðal Íslendinga og ferðamanna. Þótt hann verði með breyttu sniði í ár stendur gestum til boða að koma í heimsókn og vappa um bæinn.
Jólasveinar koma í heimsókn á laugardögum og Grýla verður á vappi um bæinn á sunnudögum til að athuga hvort allir séu ekki að virða fjarlægðarmörkin, nota andlitsgrímu og duglegir að spritta og þvo hendur. Opið verður 13 til 18 um helgar alla aðventuna.