Mikill meirihluti íbúa þeirra fimm sveitarfélaga á Suðurlandi sem verið hafa í óformlegum viðræðum um sameiningu eru fylgjandi því að sveitarfélögin taki upp formlegar sameiningarviðræður. Um er að ræða Skaftárhrepp, Mýrdalshrepp, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Ásahrepp.
Meirihluti var fyrir þessari afstöðu í fjórum sveitarfélögum, öllum nema því minnsta. Í Ásahreppi voru heldur fleiri þeirra sem spurðir voru mótfallnir þessari þróun mála en þeir sem voru meðmæltir.
„Þessi könnun var lokahnykkurinn í starfi verkefnahópsins sem verið hefur í óformlegum viðræðum og styrkti ákvörðun okkar um að senda tillögur til sveitarstjórnanna fimm um að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Það er síðan undir hverri og einni sveitarstjórn komið að ákveða framhaldið,“ segir Anton Kári Halldórsson, formaður verkefnahópsins, um niðurstöður könnunarinnar, í Morgunblaðinu í dag.
Tillagan verður tekin fyrir á næstu fundum sveitarstjórnanna. Ef allar samþykkja verður væntanlega hægt að leggja tillögu um sameiningu fyrir íbúana í atkvæðagreiðslu á næsta ári, annaðhvort næsta vor eða um haustið. Niðurstöður sveitarstjórnanna munu liggja fyrir snemma í mánuðinum.