„Það er ýmislegt búið að gerast sko, náttúrulega Covid-ið og ég missti vinnuna vegna samdráttar svo það eru alltaf einhverjar breytingar. Núna hangir maður svolítið í lausu lofti,“ segir Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur í samtali við mbl.is, inntur eftir því hvernig þetta óneitanlega sérstaka ár, 2020, hafi verið í lífi hans.
Fyrir jólin í fyrra greindi Stefán frá því í viðtali hér á síðunni að hann hefði tekið upp hefðbundna dagvinnu samhliða skáldskapnum sem hefur fylgt honum allar götur síðan hann var ungur maður í Ólafsvík á tíunda áratug síðustu aldar. Höfundurinn varð fimmtugur í sumar, leggur sína 24. bók, sé allt með talið, á vogarskálar markaðarins fyrir jólin 2020 og hefur farið um langan veg á þroskaferli hins íslenska rithöfundar.
Stefán missti ekki vinnuna fyrr en í nóvemberbyrjun svo árið einkenndist af löngum vinnudögum. „Þetta var hálfgert brjálæði, ég vaknaði bara fyrr á morgnana til að skrifa og mætti svo í dagvinnuna. Svona er þetta bara, maður verður að lifa. Ég sef þegar ég er dauður,“ segir hann glettinn og bætir því við að honum farnist jafnvel best við skrif sín á morgnana. „Þá er maður úthvíldur og með tóman haus.“
Hvað með bók Stefáns Mána í ár, höfundar sem hefur farið mjög víða í sínum efnistökum gegnum árin, stillt upp gerólíkum persónum og ólíkum söguþráðum?
„Þetta er hugmynd sem ég er búinn að vera að vinna að í dálítinn tíma,“ segir Stefán. „Þetta er samfélagsmiðlatengt og snýst um Facebook-síðu sem heitir Dauðabókin,“ bætir hann við, en það er einmitt titill nýju bókarinnar.
„Aðalpersónurnar, fyrir utan Hörð Grímsson [rannsóknarlögreglumann] vin okkar, eru menntaskólakrakkar í MH og ákveðinn hópur af krökkum fær vinabeiðnir frá öðrum krökkum sem þeir halda að séu bara skólafélagar þeirra en það eru þá bara allt „fake-prófílar“ og í kjölfarið fá þau boð um að líka við þessa síðu, Dauðabókina, sem svo fer að tala við krakkana gegnum Messenger og þá kemur í ljós að það er ákveðinn leikur í gangi, sem er leikur upp á líf og dauða og þau festast í og komast ekki út úr nema með því að drepa einhvern,“ segir Stefán frá söguþræðinum.
Hann segist hafa lagst í töluverða vinnu við að úthugsa og búa leikinn til og sagan snúist svo enn fremur að stórum hluta um rannsókn Vestfirðingsins tröllvaxna, Harðar Grímssonar, á dularfullum morðum sem hrannast upp og hver standi að baki þeim. „Þetta er dálítil svona baktjalda- og undirheimaflétta þar sem undirheimarnir eru að þessu sinni samfélagsmiðlarnir,“ segir höfundurinn frá.
Hann kveður heimildavinnu fyrir bækur sínar alla jafna hina skemmtilegustu, ávallt þurfi að afla einhverrar þekkingar og athuga verklag hjá einhverjum starfsstéttum sem koma við sögu og ber Stefán lögreglunni þar vel söguna. „Ég er með sambönd innan lögreglunnar sem ég viðheld alltaf, það er búið að vera margra ára samstarf og ég er alltaf með sama fólkið þar sem ég leita til,“ segir hann og kveður almennt allar dyr standa opnar þegar að því komi að leita til ólíkra starfsstétta um atriði sem hann þurfi að vita fyrir sögu. „Ég kem aldrei að lokuðum dyrum og finnst í raun gaman að hafa samband við ókunnugt fólk og afla mér upplýsinga, það er mjög skemmtilegur hluti af vinnunni, svona félagslegur hluti.“
Eins og fyrr segir átti Stefán Máni stórafmæli í sumar og hefur setið við skrif nánast hálfa ævina, eða frá því árið 1996. Hver er þroskaferill rithöfundar sem á þennan tíma að baki við vinnu sína?
„Manni fallast bara hendur yfir því hvað þetta eru orðin mörg ár, margar bækur og mikil vinna,“ svarar Stefán Máni og hlær. „Auðvitað er alltaf gaman að líta um öxl og reynslan byggist þannig upp að nú skrifar maður kannski hægar og minna magn á hverjum degi eða viku, en þarf fyrir vikið mun minna að henda eða stytta en fyrir 20 árum. Gæðin eru orðin meiri, vinnubrögðin agaðri og eins betri dómgreind, til dæmis á hvað virkar og hvað virkar ekki. Þegar ég er kominn með uppkast að nýrri bók núna eru gæði þess mun meiri en áður og ég þarf ekki að stytta eins mikið og ekki vinna eins mikið í handritinu og var.“
Stefán hefur nú gefið út hjá forlaginu Sögum í nokkur ár. Hvernig eru samskipti rithöfunda og útgefenda á Íslandi á meðan verk er í mótun?
„Þetta er mjög fínt hjá mér núna, Sögur eru lítið forlag sem byggir á miklu trausti og vinskap í kringum samstarfið. En auðvitað skiptir útgefandi sér af og les og gagnrýnir og allt það. Það sem skiptir mestu máli er traustið og samvinnan, við tölum mikið saman og þetta er mikil samvinna, bæði sögurnar og útlitið og hvernig þetta er kynnt,“ útskýrir Stefán og kveður mjög erfitt að vera í togstreitusambandi við útgefanda sem hann hafi sjálfur reynt.
Hvenær þarf þá að skila af sér tilbúnu handriti að jólabók ef vel á að vera?
„Ja, því fyrr því betra held ég að sé nú bara besta svarið þar. Núna eru bækur prentaðar erlendis og þær eru sendar út í prentun helst í ágúst september þótt það sé alveg hægt að gera það seinna. Svo vill maður líka kannski eiga smá frí um sumarið þannig að mér finnst mjög gott að skila svona milli páska og sumars í síðasta lagi og hafa nokkra mánuði til að vinna með ritstjóra og gera gott enn betra, en maður er ekki alltaf snemma á ferðinni og það líður langur tími frá því maður er búinn innan gæsalappa og alveg búinn,“ játar Stefán.
Upplestrar og kynningar nýrra bóka fyrir framan áhorfendur hafa löngum verið órækur jólaboði íslenskrar þjóðar. Nú er öldin þó önnur Covid-árið 2020.
„Það er bara bannað, nú má ekkert gera, ég myndi auðvitað gera það en nú eru engir upplestrar nema einhverjir eru á netinu og svona,“ segir Stefán og bætir því við að kynningarvinna á borð við upplestra höfunda úr bókum sínum sé hvort tveggja skemmtileg og gefandi frá hans sjónarhóli. „Þetta snýst um að hitta fólk og sjá andlit, lesa upp og fá viðbrögð. Rithöfundurinn er alltaf einn heima að skrifa svo það er hressandi að fara út og hitta fólk.“
Tíðin sé dauflegri núna undir járnhæl kórónunnar en á móti komi að nú lesi fólk meira, kaupi fleiri bækur og lesturinn og bóksalan sé meiri. Samskipti Stefáns núna við lesendur séu mest gegnum samfélagsmiðla. Hann er með síðu á Facebook þar sem lesendur skrifa gjarnan athugasemdir og segja frá upplifunum sínum af verkum hans. Á árum áður hafi samskipti við lesendur mest verið gegnum upplestra og kynningar og þann rammíslenska viðburð að hitta fólk úti á götu.
„Þetta er auðvitað öðruvísi núna, en maður heyrir í fleirum gegnum Facebook af því að hún er aðgengileg og þægileg og auðvelt fyrir fólk að nálgast mann,“ segir Stefán sem hefur mjög góða tilfinningu fyrir Dauðabókinni sem hafi selst vel. Óvissan sé þó alltaf mikil hvað sölutölur snertir og í raun fái hann lítið að vita um hvernig bók hefur gengið fyrr en á nýju ári. „Línurnar fara svona að skýrast í janúar en það er ekki fyrr en í febrúar sem maður sér alveg svart á hvítu hvernig fór.
„Maður veit náttúrulega aldrei um viðbrögð lesenda fyrir fram, maður bara vonar,“ segir Stefán Máni Sigþórsson, fimmtugur glæpasagnahöfundur frá Ólafsvík sem haldið hefur á stílvopni sínu í 24 ár og er hvergi nærri hættur.