Fjögurra manna senegölsk fjölskylda sem hefur búið hér á landi í sjö ár hefur beðið brottvísunar frá Íslandi til Senegals í rúman mánuð. Sema Erla Serdar greinir frá þessu í færslu á facebooksíðu sinni. Fjölskyldan bíður brottvísunar til Senegals en Sema segir að þau hafi neyðst til að flýja þaðan.
Sema lýsir biðinni með myndrænum hætti í færslunni.
„Fjölskyldan situr saman við matarborðið. Þau eru nýbúin að borða. Faðirinn er að hjálpa eldri dóttur sinni með heimanámið. Hann getur ekki einbeitt sér. Kvíðinn og áhyggjurnar hafa haldið honum vakandi lengur en hann man. Hann brosir samt. Fyrir stelpurnar.
Fjölskyldan les saman fyrir svefninn. Hlær saman. Foreldrarnir reyna að láta eins og það sé allt í lagi. Innra með sér grætur móðirin. Hún er að sturlast úr áhyggjum. Hún finnur bara sársauka.
Það er bankað á hurðina. Ætli það sé loksins komið að þessu? Eru þau komin til þess að sækja okkur og senda okkur úr landi, spyr litla stúlkan?
Nei, þetta var bara vinkona hennar að spyrja hvort hún vildi koma út að leika. Stelpurnar fara út og foreldrarnir sitja eftir stjörf á gólfinu. Enn eina ferðina,“ skrifar Sema.
Færsluna í heild má lesa hér að neðan.