Sjö ára drengur veiktist lífshættulega eftir Covid

Natan lá á spítala í ellefu daga, og var talinn …
Natan lá á spítala í ellefu daga, og var talinn í lífshættu í viku. Ljósmynd/Aðsend

Sjö ára íslenskur drengur veiktist lífshættulega í haust af bráðabólguheilkenni eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. Móðir hans segir mikilvægt að fólk sé meðvitað um að veiran geti lagst þungt á alla; líka heilbrigð börn. Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Drengurinn heitir Natan Helgi Björnsson og býr í Stokkhólmi ásamt foreldrum sínum, Huldu Dóru Höskuldsdóttur og Birni Markússyni, og tveimur bræðrum. Í ágúst sýktust þau öll af veirunni nema elsti sonurinn.

„Natan fékk væg einkenni. Hann fékk háan hita í tvo sólarhringa og svo var þetta búið,“ segir Hulda Dóra í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2. Hins vegar hafi hann glímt við eftirköst næstu vikur, átt erfitt með að borða og verið einbeitingar- og orkulaus.

Lagðist inn sjö vikum síðar

Einkennin hafi ágerst hægt og sígandi og skyndilega hafi hann fengið háan hita, byrjað að bólgna upp á höndum og fá útbrot. Í samtali við mbl.is segir Hulda Dóra að sjö vikum eftir að Natan greindist með veiruna hafi hann svo verið lagður inn á spítala. „Þá hrynur Natan.“

Hann var þar greindur með bráðabólguheilkenni (s. hyperinflammation) sem lýsir sér í ofvirku ónæmiskerfi. Bólgan ráðist á líffæri og skemmi þau ef ekkert er að gert. Natan var á sjúkrahúsi í ellefu daga og í lífshættu í nærri viku. „Við vorum einu skrefi frá gjörgæslu á Karolinska i Solna en guði sé lof að læknarnir gátu haldið honum á bráðadeildinni á Södersjukhuset,“ segir Hulda í samtali við mbl.is. 

Natan útskrifaðist af spítalanum í lok október og er nú að jafna sig á sterum, magalyfjum og hjartalyfjum.

Natan á góðri stundu.
Natan á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

Sjötíu tilfelli í Svíþjóð

Natan er síður en svo eina barnið sem fengið hefur bráðabólgu eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. Í sænska læknablaðinu í sumar sagði Lotta Nordenhäll, yfirlæknir á barnaspítala Södersjukhuset, að 50 slík tilfelli hefðu komið upp í Svíþjóð og þar af hefðu tíu þurft að leggjast á gjörgæslu. Hulda Dóra segir tilfellin nú orðin sjötíu.

„Það er þörf á alvöru umfjöllun hvað varðar börnin,“ segir Hulda Dóra. „Fólk verður að vera upplýst um hversu lúmskur þessi vírus er. Heilbrigð börn geta þurft að berjast fyrir lífi sínu út af Covid.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert