Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun. Brotið átt sér stað árið 2008 eða fyrir um 12 árum. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í dag. Vísir greindi fyrst frá málinu.
Að því fram kemur í niðurstöðum dómsins þarf Jón Páll að greiða allan sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola. Þá var honum jafnframt gert að greiða brotaþolanum 2,5 milljónir króna í miskabætur auk vaxta.
Jón Páll sagði upp störfum hjá leikhúsinu fyrir um þremur árum, en að hans sögn kenndi hann litlum skilningi bæjaryfirvalda og fjármagnsskorti um. Síðar kom í ljós að ástæða uppsagnarinnar var önnur.
Í ákæru á hendur Jóni Páli var því lýst hvernig hann á að hafa haft samræði við konu gegn vilja hennar. Lýsingarnar voru afar grófar, en brotið átti sér stað á hótelherbergi utan landsteinanna í ágústmánuði árið 2008. Í yfirlýsingu sem Jón Páll sendi frá sér árið 2018 kom fram að hann hefði fyrir nokkrum árum, að frumkvæði þolandans, unnið að sátt í málinu.