Mögulega hægt að finna krabbamein fyrr

Fjöldi þeirra sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli hefur …
Fjöldi þeirra sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli hefur farið vaxandi á Vesturlöndum á undanförnum áratugum. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Er mögulegt að komast að því mun fyrr en hingað til, hvort karlmenn eru með krabbamein í blöðruhálskirtli? Og með mun einfaldari hætti en áður? Það telja Akureyringurinn Baldur Auðunn Vilhjálmsson og samnemendur hans í Suðurdanska háskólanum, Syddansk Universitet, í Óðinsvéum. Fjallað er um þetta í netmiðlinum Akureyri.net. 

Baldur hefur, í meistaranámi sínu í hagnýtri eðlisfræði, unnið ásamt fleirum að verkefni sem snýst um að greina umrætt krabbamein úr þvagprufu. Það hefur ekki verið gert áður og segir Baldur hópinn telja hægt að greina mein, eða hættu á því, jafnvel allt að 10 árum fyrr en nú er mögulegt.

Baldur Auðunn Vilhjálmsson.
Baldur Auðunn Vilhjálmsson. Ljósmynd af Akureyri.net

Suðurdanski háskólinn tók þátt í alþjóðlegri keppni iGEM, stofnunar sem einbeitir sér að framþróun lífhönnunar – synthetic biology – og kynnti þar umrætt próf fyrir fáeinum dögum. Keppt var í fjölmörgum flokkum og fékk danski hópurinn tvenn gullverðlaun, annars vegar fyrir bestu fræðisíðuna, þar sem upplýsingar um verkefnið voru settar fram, og fyrir besta vélbúnaðinn til gagnavinnslu. Prófið sjálft vakti einnig mikla athygli.

Tvær aðferðir eru notaðar í dag: annars vegar PSA-mæling, sem gerð er með blóðprufu og Baldur segir ekki mjög áreiðanlega, hins vegar stingur læknir fingri í rass og þuklar blöðruhálsinn. „Það er áreiðanleg aðferð ef viðkomandi er kominn með krabba eða hætta á því hefur aukist, læknirinn finnur auðveldlega hvort blöðruhálskirtillinn hefur stækkað. Með prófinu sem við þróuðum er hins vegar hægt að komast að því miklu fyrr hvort menn séu með krabbameinið eða í áhættuhópi,“ segir Baldur við Akureyri.net.

Prófið sem þau Baldur þróuðu er raunar tvíþætt, bæði munnvatnsprufa og þvagprufa. Með þeim er hægt að finna ákveðna biomarka – lífmerki – sem ekki eru fyrir hendi nema maðurinn sé með blöðruhálskrabbamein á einhverju stigi, „sem gerir þetta miklu nákvæmara og áreiðanlegra próf en það sem nú er notað,“ segir Baldur enn fremur í viðtalinu en hægt er að lesa það í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert