Yfir 90% fækkun

Sigló hótel hefur notið vinsælda meðal Íslendinga.
Sigló hótel hefur notið vinsælda meðal Íslendinga. Ljósmynd/Mikael Sigurðsson

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í október síðastliðnum dróst saman um 91% samanborið við október 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 91%, um 86% á gistiheimilum og um 88% á öðrum tegundum skráðra gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.).

Þar sem landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands liggur niðri vegna mikillar fækkunar brottfara frá Keflavíkurflugvelli var ekki unnt að áætla fjölda erlendra gistinátta á stöðum sem miðla heimagistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður en þær voru um það bil 123.000 í október í fyrra að því er segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.

65% gistinátta skráðar á Íslendinga

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 69.000 í október en þær voru um 779.000 í sama mánuði árið áður. Um 65% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 45.000, en um 35% á erlenda gesti eða um 24.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 52.000, þar af 38.800 á hótelum.

Mikill samdráttur í hótelgistingu var á milli ára í öllum landshlutum en mestur á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum fækkaði úr 225.200 í 14.000 á milli ára eða um 94%. Á sama tíma dróst framboð hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu saman um 43% á milli ára um leið og herbergjanýting féll um 67 prósentustig á milli ára og var 10,2% í október síðastliðnum.

97% fækkun erlendra ferðamanna

Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum í október drógust saman um 97% á milli ára en íslenskum gistinóttum fækkaði um 32%. Gistinætur Íslendinga voru 27.000, eða 70% af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur voru 11.800 eða 30%.
Á 12 mánaða tímabili, frá nóvember 2019 til október 2020, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 2.080.000 sem er 54% fækkun miðað við sama tímabil árið áður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert