Brauðtertur og brauðtertugerð, sumardagurinn fyrsti, ganga á Helgafell, harmonikkan, gömlu dansarnir og mæðradagsblóm Kvenfélags Húsavíkur eru meðal íslenskra hefða sem tilnefndar hafa verið sem lifandi hefðir á landsskrá Íslands.
Hugsanlegt er að einhverjar af þessum hefðum rati inn á heimsskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco). Unnið er að tilnefningu laufabrauðshefðarinnar og hefðbundinnar smíði súðbyrðinga þangað.
Meðal annarra hefða sem almenningur hefur tilnefnt og ratað hafa inn á landsskrána eru ættarmót, saumaklúbbar, brúnaðar kartöflur og að fara í berjamó. Íslensku jólasveinarnir eru einnig meðal hefðanna þar, sem og slátur og sláturgerð, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.