Er væntanlega mun skæðari en flensa

AFP

„Heimsfaraldur Covid-19 er iðulega borinn saman við fyrri heimsfaraldra inflúensu. Ef það er gert á þann hátt að leiðrétta fyrir aldri, meðferðarúrræðum og aðstæðum hverju sinni, benda nær öll gögn til þess að Covid-19 sé mun skæðari sjúkdómur en inflúensur sem valdið hafa heimsfaröldrum.“ Þetta segir í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar læknis í svari á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem spurt var hvort Covid-19 væri nokkuð hættulegri en flensa.

Hér ber þó að hafa í huga að samanburður á heimsfaraldri sem enn stendur yfir og heimsfaraldri sem er yfirstaðinn er ómögulegur. Ekki er hægt að meta endanlegan fjölda tilfella og dauðsfalla smitsjúkdóms í miðjum faraldri segir Jón Magnús enn fremur.

Yfir 1,4 milljónir þeirra sem hafa smitast af Covid-19 eru …
Yfir 1,4 milljónir þeirra sem hafa smitast af Covid-19 eru látnar. AFP

Verulegur munur er á flensu og Covid-19 – það er engan veginn hægt að segja að Covid-19 sé eins og hver önnur flensa, enda um tvo aðskilda sjúkdóma að ræða sem orsakast af tveimur gjörólíkum veirum segir í eldra svari Jóns Magnúsar á Vísindavefnum. 

Tæpar 60 milljónir tilfella af Covid-19 hafa verið staðfest nú þegar og rúmlega 1.400.000 dauðsföll. „En þar með er ekki öll sagan sögð; báðar tölurnar eru án efa vanmat. Endanlegt mat á skaðsemi fyrri inflúensufaraldra lá ekki fyrir fyrr en mörgum árum eftir að þeim lauk. Ef litið er til árstíðabundinna faraldra inflúensu er metið að úr þeim deyi árlega um 250.000 – 650.000 einstaklingar.

Það er augljóslega langtum lægra en dauðsföll vegna Covid-19, sérstaklega ef við höfum í huga að þau dauðsföll sem þegar hafa orðið eiga sér stað samhliða ströngustu lýðheilsuinngripum síðustu 100 ára. Endanlegur skaði af Covid-19 mun ekki liggja ljós fyrir, fyrr en eftir fjölda ára. Samanburður á þessum tímapunkti gefur engu að síður skýra niðurstöðu um hvert stefnir,“ segir enn fremur á Vísindavef HÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert