Hallur Már -
„Ég myndi vilja sjá að Katrín Jakobsdóttir sýni auðmýkt. Ég myndi vilja sjá að hún axlaði ábyrgð á því að hafa varið Sigríði Á. Andersen vantrausti á sínum tíma,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu og að orðspor Íslands sem réttarríkis hafi skaðast.
Í myndskeiðinu er rætt við Þórhildi Sunnu í kjölfar þess að niðurstaða dómsins barst í morgun. Hún segir niðurstöðuna „sögulegan áfellisdóm á áratugalanga aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins við skipan dómara,“ og kallar eftir því að stjórnarflokkarnir sýni ábyrgð. Ekki síst Framsókn og VG sem hafi á sínum tíma verið á móti skipun dómaranna en hafi síðan þá myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum og skipt um kúrs í málinu.
Þingkonurnar Helga Vala helgadóttir, Samfylkingu, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem er utan flokka eftir að hafa sagt sig úr VG, tjáðu sig um niðurstöðu Mannréttindadómstólsins á Twitter fyrr í dag.
Réttarríkið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Það að borgarar geti treyst því að fá mál sín rekin fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstólum er grundvallarréttur sem skiptir ekki miklu máli heldur öllu máli. 1/7
— Helga Vala Helgadóttir (@Helgavalan) December 1, 2020
Þá er það staðfest. Niðurstaðan gæti ekki verið skýrari. #ECHR vill ekki sjá pólitísk inngrip á Íslandi við skipan dómara. Nú er ekki tíminn til að tala niður Mannréttindadómstól Evrópu,heldur spyrja; hvers vegna ákvað ríkisstjórn Íslands að fara í þennan niðurlægjandi leiðangur? https://t.co/GuqdfSX3eI
— Rósa Björk B (@RosaBjorkB) December 1, 2020