Ísland, Eistland, Finnland og Írland eru einu Evrópulöndin þar sem styrkur fíns svifryks er undir strangari viðmiðunargildum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) um loftgæði í Evrópu 2020. Hún er byggð á niðurstöðum opinberra mælinga á meira en fjögur þúsund mælistöðvum víðsvegar um Evrópu árið 2018.
Þar segir að aukin loftgæði hafi dregið mikið úr ótímabærum dauðsföllum á síðasta áratug í Evrópu. Þrátt fyrir það sýni nýjustu opinberar tölur að næstum allir íbúar álfunnar líði vegna loftmengunar sem valdi um 400.000 ótímabærum dauðsföllum á ári um alla álfuna.
Styrkur fíns svifryks í andrúmslofti var umfram viðmiðunarmörk Evrópusambandsins (ESB) í sex aðildarríkjum þess, Búlgaríu, Ítalíu, Króatíu, Póllandi, Rúmeníu og í Tékklandi. Fínt svifryk olli um 417.000 ótímabærum dauðsföllum í 41 Evrópulandi árið 2018, að mati EEA. Af þeim urðu um 379.000 í 28 aðildarríkjum ESB, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.