Niðurstaðan veldur vonbrigðum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi niðurstaða almennt veldur vissulega vonbrigðum, því við höfðum vænst að fyrri dómi yrði snúið við, til samræmis við okkar málflutning,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu sem kveðinn var upp í dag.

Yf­ir­rétt­ur­ dómstólsins er ein­róma um að brotið hafi verið gegn sjöttu grein mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu, en dóm­stóll­inn hafði áður klofnað í af­stöðu sinni til máls­ins.

Þvert á niðurstöðu Hæstaréttar

„Það virðist vera margt athyglisvert í þessum dómi og rökstuðningi með honum sem ber að skoða nánar,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is og bendir á að sú staðreynd að yfirréttur Mannréttindadómstólsins hafi tekið málið til meðferðar sé staðfesting á því að um þýðingarmikið lögfræðilegt álitaefni hafi verið að ræða.

„Það var fullt tilefni að fá útgefna niðurstöðu um það og eyða allri óvissu um stöðu Landsréttar og dómara við réttinn.“

Hún bendir á að dómur Mannréttindadómstólsins gangi þvert á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, æðsta dómstólsins í íslenskum dómsmálum. Niðurstöður Mannréttindadómstólsins hafi þó ekki sjálfkrafa bein áhrif hér á landi.

Hún muni nú rýna nánar í dóminn ásamt sérfræðingum.

Haggi ekki sjálfkrafa úrlausnum

„Við tökum þessa niðurstöðu að sjálfsögðu alvarlega enda erum við aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og dómar mannréttindadómstólsins hafa haft áhrif á íslenskan rétt, þó að þeir haggi ekki sjálfkrafa úrlausnum eða túlkunum íslenskra dómstóla,“ segir Áslaug.

„En við búum í réttarríki þar sem enginn vafi má ríkja um sjálfstæði dómstóla og almenningur verður að geta borið fullt traust til starfsemi þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert