„Verðum að fara að gera eitthvað“

Óskar Bjarni Óskarsson, yfirþjálfari handknattleiksdeildar hjá Val.
Óskar Bjarni Óskarsson, yfirþjálfari handknattleiksdeildar hjá Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hljóð er tekið að þyngjast í ungmennum á aldrinum 16-18 ára að sögn Óskars Bjarna Óskarssonar, yfirþjálfara handknattleiksdeildar Vals. Hafa þau ekki getað mætt til skóla í haust auk þess sem íþróttastarf hefur legið niðri fyrir þennan hóp. Hann segir að ný bylgja af veirufaraldrinum gæti reynst hópnum erfið og kallar eftir lausnum. 

Engar æfingar hafa verið í haust.
Engar æfingar hafa verið í haust.

„Sem yfirþjálfari í Val, aðstoðarþjálfari í meistaraflokkum og foreldri stráka á þessum árum get ég sagt að þetta sé erfitt. Þessi skortur á félagslegu tengslum er klárlega farinn að hafa áhrif,“ segir Óskar Bjarni. „Það eru alls konar týpur í þessu. Við erum bæði með afreksfólkið sem stefnir á meistaraflokk og þá sem eru í þessu fyrir félagsskapinn. Við óttumst brottfall og fundum fyrir því eftir fyrstu bylgjuna. Það er vegna þess að við missum tengslin við krakkana og þau missa tengslin við hvort annað. Við höfum því klárlega áhyggjur,“ segir Óskar Bjarni. 

Ekki að velta fyrir sér keppni 

Hann bendir á að flestöll íþróttafélög séu í sambandi við krakkana í gegnum tölvuforrit. „Við höfum reynt að vera með æfingar á Zoom sem þau geta gert sjálf og einnig reynt að vera með pub quiz spurningakeppni fyrir þau og annað, en mér finnst eins og þeim finnist svoleiðis samskipti vera orðin svolítið þreytt því þau eru í skólanum líka í gegnum netið,“ segir Óskar Bjarni.  

Ungmennum undir 16 ára aldri mega æfa íþróttir en ekki …
Ungmennum undir 16 ára aldri mega æfa íþróttir en ekki börn sem eru undir 18 ára aldri. Ljósmynd/Kristinn Arason

Hann segir að enginn sé að velta því fyrir sér að hefja keppni í þessum aldurshópi. Heldur sé hugmyndin að veita krökkunum einhverja leið til þess að fá útrás og tengsl við íþróttirnar, hvort sem það sé í minni hópum eða með öðrum lausnum. „Við verðum að fara að gera eitthvað. Er ekki hægt að vera með litla hópa sem geta komið saman í risastór íþróttahús og gert eitthvað? Ef við erum svo að horfa upp á fjórðu bylgju þá verður að finna einhvera lausn á þessu. Það er bara ekki hægt að taka af þeim skóla og íþróttir í svona langan tíma,“ segir Óskar Bjarni.   

Sumir hugsa út fyrir landsteinana

Hann segir að dæmi séu um að þeir sem ætli sér að ná langt í íþróttum séu farið að hugsa út fyrir landsteinana. Ekki endilega að fara í atvinnumennsku eða að spila keppnisleiki, heldur að fá að æfa með liðum til að komast í umhverfi þar sem þeir þróa leik sinn áfram. Náminu er hægt að sinna í tölvu hvar sem er í heiminum. 

Flest menntaskólabörn hafa hvorki getað sótt skóla né íþróttastarf.
Flest menntaskólabörn hafa hvorki getað sótt skóla né íþróttastarf. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hann bendir á að afreksíþróttafólkið sé einungis einn hópur sem stundar íþróttir. „Þetta eru ólíkir krakkar sem eru í íþróttum hvert á sínum forsendum. Hætt er við því að margir þeirra detti úr íþróttaumhverfinu. Oft duglegir krakkar sem verða líka sjálfboðaliðar, dómarar og eru í kringum starfið,“ segir Óskar Bjarni. 

Hann segist gera sér grein fyrir því að hann sé enginn sérfræðingur um líðan barna. Hins vegar blasi við ástandið sé ekki gott. „Það ætti að vera hægt að halda einhverju gangandi inni í íþróttahúsunum. Við þurfum að hugsa til framtíðar þegar fjórða bylgjan ríður yfir. Hvað ætlum við að gera?,“ spyr Óskar Bjarni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka