Kona, sem sökuð var um að hafa villt á sér heimildir þar sem hún starfaði sem bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í byrjun apríl, verður ekki ákærð.
Jón Bjarni Kristjánsson, lögmaður konunnar, staðfestir þetta við mbl.is. Fyrst var greint frá málinu á vef Rúv.
Jón Bjarni vildi lítið meira segja um málið að svo stöddu en sagði að von væri á yfirlýsingu frá skjólstæðingi hans síðar í dag.
Konan var handtekin 10. apríl í Bolungarvík, sökuð um að hafa framvísað fölsuðum gögnum og misfarið með lyf. Hún sagðist vera alsaklaus og að hún hefði ekkert að fela. Hún sagðist jafnframt hafa verið meðhöndluð eins og stórglæpamaður.