Þegar fyrsta bylgja kórónuveirunnar gekk yfir í mars og apríl sl. virðist hún hafa haft neikvæð áhrif á bæði hreyfingu og mataræði fullorðinna Íslendinga.
Þetta má lesa út úr reglulegum mælingum landlæknisembættisins á heilsuhegðun og líðan Íslendinga, sem greint er frá í Talnabrunni landlæknis.
„Niðurstöðurnar benda til að fyrsta bylgja Covid-19, í mars-apríl 2020, hafi almennt haft merkjanleg, neikvæð áhrif á hreyfingu fullorðinna. Á heildina litið eru vísbendingar um að hlutfallslega fleiri fullorðnir hafi stundað litla eða enga miðlungserfiða og erfiða hreyfingu í mars-apríl árið 2020 heldur en á sama tíma árið 2019,“ segir þar.
Í ljós kemur að í mars og apríl fjölgaði þeim hlutfallslega frá árinu á undan sem sögðust hreyfa sig lítið sem ekkert, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.