Bæjarstjórn Akureyrarbæjar telur illa vegið að framhaldsskólum á Norðurlandi þar sem þeir bera verulega skertan hlut frá borði í fjárlögum 2021 sé miðað við aðra framhaldsskóla landsins og að þeir raði sér í neðstu sætin séu prósentuhækkanir milli ára skoðaðar. Þetta kemur fram í áskorun sem var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær.
„Þá harmar bæjarstjórn að nú virðist vanta 150 milljónir króna á árinu 2021 til þess að Háskólinn á Akureyri geti staðið straum af verulegri aukningu stúdenta undanfarin ár, en óásættanlegt er ef skólinn fer að vísa nemendum frá námi vegna fjármagnsskorts.
Framhaldsskólarnir og Háskólinn á Akureyri gegna mikilvægu hlutverki í sveitarfélaginu sem og í landshlutanum. Skólarnir skipta máli fyrir menntun í heimabyggð, atvinnutækifæri, byggðaþróun og almenn lífsgæði í landshlutanum. Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar á ríkisstjórnina að standa ekki aðeins vörð um skólana, heldur að skapa þeim svigrúm til þess að sækja fram.“