Skýrmæli og að finna rétta raddblæinn sem er í anda efnisins eru mikilvæg atriði við upplestur.
Þetta segir Þórunn Hjartardóttir sem í gær fékk viðurkenningu Hljóðbókasafns Íslands fyrir að hafa lesið alls 500 bækur fyrir safnið, sem sinnir þörfum blindra og sjónskertra og annara sem ekki geta nýtt sér prentað letur. Sérstök áhersla er lögð á námsbækur en jafnframt að bókakostur sé fjölbreyttur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Fyrir safnið starfa að jafnaði um 30 lesarar í verktöku og hefur Þórunn verið í þeirra hópi frá árinu 1992. Á þeim tíma hefur hún lesið til upptöku bækur af ýmsum toga; skáldverk, ljóð, ævisögur, námsbækur og svo mætti lengi telja. Upplesturinn fer fram í húsakynnum Hljóðbókasafnsins í Kópavogi, þar sem eru fjórar hljóðstofur og fullkominn upptökubúnaður.
„Sérhver bók er ákveðin ögrun og koma þarf réttu skilaboðunum og tilfinningunni til skila. Námsbækur, til dæmis í raungreinum, geta verið vandasamar þegar þarf að segja frá alls konar táknum og myndrænum atriðum. Samt tekst þetta allt að lokum,“ segir Þórunn sem hefur nýlokið lestri á 500. bókinni sem er Nýsköpun og frumkvöðlafræði eftir Óttar Ólafsson.