Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur auk tveggja starfsmanna embættisins verið kallaður til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn héraðssaksóknara. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en blaðið nafngreinir aðeins Ólaf Helga.
Ólafur Helgi lét af starfi lögreglustjóra í ágúst eftir nokkrar deilur innan embættisins.
Starfsmennirnir tveir hafa verið sendir í leyfi á meðan á rannsókninni stendur. Ekki eru staðfestar heimildir fyrir sakarefninu en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru starfsmenn kallaðir á fund lögreglustjóra í haust til að ræða meint trúnaðarbrot. Ólafur Helgi vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað að því er fram kemur á forsíðu Fréttablaðsins í dag.