Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og nokkrir þingmenn aðrir, hafa lagt fram frumvarp um breytingu á innheimtu útvarpsgjalds Ríkisútvarpsins. Þar er lagt til að gjaldið verði innheimt með beinum hætti, tvisvar á ári, með rafrænum greiðsluseðli í heimabanka, líkt og t.d. tíðkist með bifreiðagjöld.
Þannig verði horfið frá því að innheimta útvarpsgjaldið samhliða álagningu opinberra gjalda, en aðrir þættir varðandi gjaldskyldu, undanþágur frá gjaldskyldu og upphæð gjaldsins verði óbreyttir. Sömuleiðis verði lögþvingun áskrifta að Ríkisútvarpinu í formi útvarpsgjalds óbreytt.
Markmið frumvarpsins er að með beinni innheimtu verði þetta sérstaka áskriftargjald að þjónustu sjálfstæðrar, opinberrar stofnunar sýnilegra, sem stuðli að betri kostnaðarvitund almennings þegar kemur að tekjuöflun Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu. Sömuleiðis aukist eðlilegt og nauðsynlegt aðhald að Ríkisútvarpinu, jafnt rekstrarlega og faglega við dagskrárgerð.
Ríkisútvarpið er fjármagnað í samræmi við þjónustusamning, með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum, sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi.