„Við fylgjumst grannt með þróun mála og erum tilbúin í flutninga um leið og dreifing lyfjanna getur hafist,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.
Þess er skammt að bíða að dreifing bóluefnis gegn kórónuveirunni geti hafist, sem kallar á umfangsmikla flutninga lyfja til heilbrigðisstofnana frá birgjum. Þeir hafa verið í sambandi við flugfélög, enda þótt litlar upplýsingar séu gefnar og forsendur þess hvernig staðið verður að málum því enn að mestu óljósar.
Meðal framleiðenda lyfja gegn kórónuveirunni eru BioNTech og Pfizer. Frá síðarnefnda fyrirtækinu hefur heyrst að 1.000 skammtar af bóluefni verði í hverjum 40 kílóa kassa. Samkvæmt því má ljóst vera að ummál varningsins sem flytja skal er í raun ekki mikið, þótt bólusetja skuli þorra Íslendinga.
„Spurningarnar sem við höfum eru fremur varðandi flutninginn, til dæmis ef flytja þarf lyfin í þurrís. Skv. reglum má aðeins ákveðið magn af þeim kælimiðli vera um borð í flugvél í einu. Við höfum því óskað eftir frekari upplýsingum,“ segir Gunnar Már í umfjöllun um þessa hugsanlegu flutninga í Morgublaðinu í dag.