Drög að að endurskoðuðu ofanflóðahættumati fyrir Flateyri hafa verið kynnt á íbúafundi með Flateyringum og fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.
Í drögunum eru tæplega 20 hús á C-svæði neðan snjóflóðavarnargarða, en áður var ekkert hús á því svæði. Á B-svæði eru nú rúmlega 11 hús en þar var aðeins eitt hús áður. Mesta breytingin er á legu B-línunnar.
Hættumatið öðlast ekki formlegt gildi fyrr en það hefur verið kynnt aftur í endanlegri mynd og staðfest af ráðherra, að því er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Nánar er fjallað um snjóflóðin úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili í janúar í nýrri skýrslu frá Veðurstofunni.
Tæplega 30 snjóflóð hafa verið skráð úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili frá 2004, þegar núverandi hættumat tók gildi. Tíðni flóða hefur verið endurmetin og er hún nú metin heldur hærri en samkvæmt hættumatinu 2004. Snjóflóðið úr Skollahvilft árið 1995 er talið hafa endurkomutíma um 100 ár en áður var endurkomutími þess metinn um 140 ár.
Flóðið í janúar síðastliðnum er talið hafa endurkomutíma um 80 ár og flóðið úr Innra-Bæjargili í janúar um 20 ár. Það flóð féll á hús við Ólafstún þar sem stúlka grófst undir en var bjargað. Án varnargarða er talið að snjóflóð myndu ná niður í byggðina á um 10 ára fresti úr hvorum farvegi.
„Þessi breyting á endurkomutíma snjóflóða skiptir þó ekki sköpun í hættumatinu“, segir Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri ofanflóða á Veðurstofu Íslands, á vefsíðunni. „Heldur er það þetta yfirflæði iðukastahlutans svokallaða sem ekki var gert ráð fyrir í fyrra hættumati, enda var það eðli snjóflóða ekki þekkt á þeim tíma“, segir Magni.
Enn er gert ráð fyrir að varnargarðarnir beini þétta kjarna snjóflóða að mestu frá byggðinni. Yfirflæðið er eðlisléttara en þétti kjarninn og getur munurinn verið 3-10 faldur. Hættan vegna yfirflæðisins er því mun minni en af þétta kjarnanum. Yfirflæðið stöðvast einnig hraðar eftir að það skilst frá þétta kjarnanum.
Í hættumatinu frá 2004 er gert ráð fyrir að varnargarðurinn undir Skollahvilft auki snjóflóðahættu á hafnarsvæðinu. Þessi áhrif voru þó verulega vanmetin, samkvæmt því sem kemur fram á vef Veðurstofunnar. Flóðið í janúar gekk langt út í höfnina langleiðina að A-línunni eins og hún er í hættumatinu frá 2004. Líkanreikningar nú sýna að þétti kjarni stærri flóða getur farið yfir höfnina, gengið á land og farið um eða yfir 250 lengra en þau hefðu farið án varnargarðsins.
Í drögum að endurskoðuðu hættumati er höfnin öll á C-svæði og nokkur hús neðan hennar. A-línan nær vestur fyrir Hafnarstræti og þar. Neðan hafnarinnar eru hús á hættusvæði sem voru ekki á hættusvæði áður en varnargarðurinn undir Skollahvilft var reistur.