„Þetta er ekki kapphlaup“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. Kristinn Magnússon

Íslendingar gátu ekki farið sömu leið og Bretar og þar með fengið bóluefni hingað til lands fyrr en núverandi áætlanir gera ráð fyrir. Ástæðan er sú að niðurstöður rannsókna á bóluefni Pfizer/BIONtech hefðu þurft að berast hingað til lands um leið og þær lágu fyrir. 

Í framhaldinu hefði þurft sérfræðikunnáttu til að fara yfir niðurstöðu rannsókna sem ekki sé til staðar innanlands. „Við höfum því reitt okkur á sérfræðikunnáttuna hjá Lyfjastofnun Evrópu (LE) til að fara yfir rannsóknarniðurstöður og það er mjög mikilvægt að menn séu samstíga og tekin sé heildstæð afstaða til bóluefnanna bæði hvað varðar virkni og öryggi. Þannig er hægt að fara af stað með bólusetningu með eins öruggum hætti og með góða vitneskju í farteskinu og hægt er,“ segir Þórólfur.

Rannsóknir á gæðum bóluefna Pfizer, Moderna og Aztra Zeneca standa …
Rannsóknir á gæðum bóluefna Pfizer, Moderna og Aztra Zeneca standa yfir. AFP



Var þá ekki hægt að fylgja Bretunum og þeirra rannsóknum?

„Það hefði verið mjög erfitt því þeir tilkynntu þetta allt í einu. Hvort sem það var pólitísk ákvörðun eða annað vitum við ekki. Ég held að það mjög mikilvægt þegar farið er í svo stóra aðgerð sem felst í því að bólusetja milljarða manna, að hafa eins örugga vitneskju og hægt er. Það að flýta sér og yfirsjást eitthvað getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér,“ segir Þórólfur.

Fordæmalaus aðgerð 

Hann segir að Íslendingar geti ekki notað lyf nema að undangengnu miðlægu eftirliti eins og hjá LE. Bretar hafi notað neyðarrétt til að byrja bólusetningu fyrr en annars staðar en Þórólfur telur að enga þörf á slíkum aðgerðum. Von sé á niðurstöðum Lyfjastofnunar í lok mánaðarins. „Þetta er ekki kapphlaup. Við erum að gefa nánast allri þjóðinni lyf og það er fordæmalaus aðgerð. Það þarf að gera með eins öruggum hætti og hægt er,“ segir Þórólfur.

Stutt í samning við Pfizer 

Enn er óljóst hvort öll bóluefni sem eru í framleiðslu verði til taks fyrir Íslendinga. Að sögn Þórólfs er skammt í samkomulag LE við Pfizer og eins og fram hefur komið stendur Íslendingum til boða 85 þúsund skammtar af bóluefninu. Kominn er samningur við Aztra Zeneca og gert ráð fyrir því að hægt verði að fá bóluefni frá fyrirtækinu fyrir um 115 þúsund manns. Búist er við því Lyfjastofnunin klári að fara yfir rannsóknir tengdar bóluefninu í janúar.

Þórólfur segir það fordæmalausa aðgerð að bólusetja nánast alla í …
Þórólfur segir það fordæmalausa aðgerð að bólusetja nánast alla í landinu. Haraldur Jónasson/Hari

Ekki hefur verið gengið frá samkomulagi við Moderna en LE er að fara yfir rannsóknir tengdar bóluefninu og er búist við niðurstöðum í lok mánaðar. Helgast það af því að bóluefni Pfizer og Moderna eru lík og er því samhliða farið yfir rannsóknir tengdar þeim að sögn Þórólfs.

Ekki búið að kortleggja bólusetninguna 

Sagt er að þeir 85 þúsund skammtar sem gert er ráð fyrir að berist af Pfizer bóluefninu fari til fyrst til forgangshópa. Þeir eiga þó að duga fyrir um 42.500 manns sem er langt umfram þann forgangshóp sem hefur verið nefndur. Að sögn Þórólfs hefur þetta ferli ekki verið kortlagt endanlega. „Það er mikil vinna sem felst í því en við búumst við því að hún muni klárast um áramótin,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert