Varaafl hefur verið bætt á 68 fjarskiptastöðum um land allt í fyrri áfanga vegna umfangsmikilla endurbóta á fjarskiptastöðum. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum eftir mikil óveður sem gengu yfir landið í desember 2019.
Settar hafa verið upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, rafgeymum bætt við á tíu lykilskiptistöðvum fjarskipta, tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, ljósleiðaratengingum fjölgað og ýmsar endurbætur gerðar á öðrum stöðum, að því er segir í tilkynningu.
Varaaflsverkefninu var skipt í tvo áfanga. Í þeim fyrri var unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Stefnt er að því að 100 milljónir króna bætist við verkefnið á næsta ári. Þá verður hugað að varaaflstöðvum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Þegar hefur tekist að gera ýmsar úrbætur á Vestur- og Suðurlandi í tengslum við fyrri áfangann en þeirri vinnu verður haldið áfram.
Í kjölfar veðurhamfara síðasta vetur ákvað ríkisstjórnin að ráðast í átak um úrbætur á fjarskiptainnviðum og varaaflstöðvum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, greindi frá því í vor að verkefnið fengi 275,5 milljóna króna fjárveitingu á þessu ári á vegum fjarskiptasjóðs. Fjárveitingin var veitt á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda til að sporna jafnframt gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins.
„Óveðrið sem gekk yfir landið afhjúpaði marga veikleika í rafmagns- og fjarskiptakerfum landsins og boðaði ríkisstjórnin fjárfestingaátak sem er að klárast. Tilgangurinn er að tryggja fjarskiptaöryggi í óveðrum. Við ætlum að tryggja sem best að ef slíkt fárviðri geisar aftur sé til staðar varaafl og nægt rafmagn. Skipting framkvæmda fer eftir ástandi flutnings- og dreifikerfa rafmagns og varaafls en það kom í ljós að þessir innviðir þoldu hvað verst óveðrið á Norðurlandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í tilkynningunni.
Neyðarlínan hefur átt í nánu samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið um aðgerðir til að tryggja samfelld fjarskipti í langvarandi rafmagnsleysi. Neyðarlínan hefur verið í forsvari fyrir verkefninu og samningur um það var gerður 6. maí síðastliðinn.
Fimmtán færanlegar rafstöðvar hafa einnig verið pantaðar en þær verða til taks hjá björgunarsveitum og slökkviliðum á Norður- og Austurlandi.