Gengisstyrking krónunnar gæti leitt til þess að verð nýrra bíla sem kosta nokkrar milljónir króna lækki um hundruð þúsunda. Þetta er mat Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, sem telur það munu örva sölu. Gengið hafi haft meiri áhrif á söluna en nokkur annar þáttur síðustu áratugi.
Evran kostar nú um 153 krónur en kostaði 165 krónur í lok október, að því er fram kemur í Morguunblaðinu í dag.
Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna, segir umboðið þegar hafa lækkað verð á Porsche-bílum. Til dæmis kosti jeppinn Porsche Cayenne, sem er tengiltvinnbíll, nú frá 14,9 milljónum sem sé lækkun um rúmlega milljón.
Erna Gísladóttir, forstjóri BL, segir gengisstyrkinguna munu hafa áhrif á söluverð nýrra bíla. „Ég myndi halda að við færum að sjá lækkun í byrjun næsta árs. Það er alltaf mikil samkeppni á bílamarkaðnum. Ég held því að menn fari að lækka verð fyrr en seinna, ef krónan helst á þessu bili. Það er miklu betra að bjóða hagstæðara verð, enda eru menn þá líklegri til að finna fleiri kaupendur,“ segir Erna um áhrif verðlækkana.