Karítas Ríkharðsdóttir
683 tilkynningar hafa borist lögreglu á höfuðborgarsvæðinu vegna meintra brota á sóttvarnareglum frá september til og með nóvember, samkvæmt svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Tilkynningarnar koma m.a. frá almenningi, vegna stikkprufa lögreglu eða vegna eftirfylgni lögreglu vegna gruns um brot. Að jafnaði eru þetta meira en sjö tilkynningar á dag.
Frá því þriðja bylgja kórónuveirusýkinga hófst hafa 35 brot á sóttkví og einangrun verið skráð hjá lögreglu. Flest eru enn til meðferðar hjá lögreglu en í fjórum tilvikum hefur rannsókn verið hætt og þrjú eru í sektarmeðferð eða sekt hefur verið greidd.
Þá hafa 25 brot gegn sóttvörnum verið skráð hjá lögreglu á sama tímabili. Þá er átt við lögaðila eins og verslanir og veitingastaði. Þau eru einnig flest enn til meðferðar, tvö hafa fallið niður og eitt er í sektarmeðferð, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.