Hús rísa í Bryggjuhverfi vestur

Gert er ráð fyrir 850 íbúðum í hverfinu.
Gert er ráð fyrir 850 íbúðum í hverfinu.

Fyrstu húsin eru byrjuð að rísa í nýju íbúðahverfi Reykjavíkur, Bryggjuhverfi vestur. Þarna er gert ráð fyrir allt að 850 íbúðum, að hluta til á landfyllingum og að hluta til á athafnasvæði Björgunar ehf. í Sævarhöfða, en fyrirtækið hefur sem kunnugt er hætt starfsemi þar.

Það eru Búseti húsnæðissamvinnufélag og Bjarg íbúðafélag sem byggja á sameiginlegum byggingarreit 124 íbúðir í sex húsum í austurhluta nýja hverfisins. Arkþing annaðist arkitektahönnun og Ístak er byggingarverktaki.

Þótt byggt sé á sameiginlegum reit eru félögin hvort með sínar áherslur, segir Ágústa Guðmundsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Búseta. Fyrsta skóflustunga var tekin í júní 2020 og gert er ráð fyrir því að íbúðirnar verði tilbúnar seinni hluta ársins 2021. Húsin munu mynda randbyggð sem umlykur sameiginlegt garðrými.

Við Beimabryggju 5 reisir Búseti fjögurra hæða hús með mænisþaki þar sem verða 26 íbúðir 2ja, 3ja og 4ra herbergja, á stærðarbilinu 43-90 fermetrar.

Áhersla lögð á skjól og birtu

Að sögn Ágústu var við hönnun húsanna lögð áhersla á skjólmyndun og heppilega afstöðu til sólar. „Hverfið á að þróa á skemmtilegan hátt og þar er meðal annars gert ráð fyrir vel útfærðu torgi sem myndar miðpunkt hverfisins. Lögð verður áhersla á að íbúar hafi aðgengi að sjónum til að njóta útsýnisins og manngerðrar fjöru með þrepastöllum, þar sem hægt verður að setjast niður.“

Bryggjuhverfi austur, við Elliðaárvog/Grafarvog, er fullbyggt. Uppbyggingin hófst fyrir rúmlega 20 árum, eða árið 1998. Þarna eru nú 600 íbúðir og skráðir íbúar um 1.100 talsins. Í hverfið hefur vantað ýmsa þjónustu, svo sem verslanir og skóla, en úr því verður bætt í Bryggjuhverfi vestur.

Þá bendir Ágústa á að margvísleg þjónustufyrirtæki og verslanir sé nú þegar að finna í næsta nágrenni, á Ártúnshöfðanum. Fyrsta lota í uppbyggingu Borgarlínu geri ráð fyrir fyrir að ein af aðaltengistöðvunum verði við Breiðhöfða á Ártúnshöfða. Til að tengja hverfið við Höfðann, og þar með Borgarlínu, sé nú unnið að gerð aflíðandi stígs og tröppustígs um Bryggjubrekku sem verður hluti af stígakerfi borgarinnar.

Deiliskipulagssvæði Bryggjuhverfis vestur er 14 hektarar og gerir ráð fyrir íbúðabyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Gert er ráð fyrir rúmlega 100 þúsund fermetrum nýbygginga ofanjarðar. Sem fyrr segir verður hluti bygginga reistur á landfyllingum og sá Björgun ehf. um það verk.

Heiti sækonunga í þulum Snorra-Eddu verða notuð sem nöfn á nýjum götum í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog. Þetta var tillaga nafnanefndar Reykjavíkur, sem var samþykkt.

Umræddar götur, sem eru á svæði 1, munu heita Beimabryggja, Buðlabryggja, Endilsbryggja, Gjúkabryggja og Leifnisbryggja.

Jafnframt hefur verið lagt fram erindi nafnanefndar þar sem gerð er tillaga að nöfnum gatna á svæði 2 í Elliðaárvogi. Göturnar þar munu heita: Álabryggja, Eitilsbryggja, Gautreksbryggja, Geitisbryggja, Hakabryggja, Högnabryggja, Lyngvabryggja, Mundilsbryggja og Rökkvabryggja.

Búseta til langs tíma

Búseti er húsnæðissamvinnufélag að norrænni fyrirmynd sem býður upp á fasteignir af fjölbreyttum stærðum og gerðum á höfuðborgarsvæðinu. Kaup á búseturétti er valkostur fyrir þá sem vilja búa við öryggi og festu en vilja ekki endilega kaupa fasteign, segir á heimasíðu félagsins. Félagsmenn Búseta eru yfir 5.000 talsins og rúmlega 1.000 af þeim eru búseturéttarhafar.

Bjarg íbúðafélag er húsnæð-issjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka