Hvað breytist á Íslandi vegna Brexit?

Aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretland lýkur um áramótin.
Aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretland lýkur um áramótin. AFP

Aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur um áramótin. Á miðnætti 1. janúar á miðevrópskum tíma verður Bretland ekki lengur hluti af EES-samstarfinu. Gagnvart Íslandi breytast því nokkrir hlutir.

Utanríkisráðuneytið hefur tekið saman það helsta sem breytist í samskiptum Bretlands og Íslands frá og með áramótum.

EES-samningurinn gildir ekki 

EES-samningurinn mun ekki gilda um Bretland frá og með áramótum. Þetta er helst breyting fyrir Íslendinga sem búa í Bretlandi eða hafa hug á því að flytja þangað á næstunni. Þetta mun einnig hafa áhrif á þá sem stunda viðskipti við Bretland. Dæmi um breytingar sem kann að þurfa að undirbúa eru:

  • Allir sem flytja ætla til Bretlands á næsta ári eða síðar þurfa að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði.
  • Evrópska sjúkratryggingakortið mun ekki gilda lengur og þurfa þau sem fara til Bretlands að huga að ferðatryggingum.
  • Reglur EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi fellur úr gildi. T.d. mun viðurkenning á sérnámi í læknisfræði ekki gilda lengur og verða menntaðir sérlæknar frá Bretlandi að sækja um viðurkenningar líkt og aðrir frá þriðja landi (land utan EES-svæðisins) gera.
  • Bretland mun teljast þriðja ríki þegar kemur að innflutningi matvæla. Tollkvótar EES munu því ekki gilda fyrir Bretland.

Hvað breytist ekki?

Íslendingar búsettir í Bretlandi í lok árs halda réttindum sínum til búsetu og dvalar. Þó þarf að sækja um stöðu „settled/pre-settled“ hjá stjórnvöldum í Bretlandi. Þau sem hafa þá stöðu halda aðgangi að heilbrigðiskerfinu NHS.

Réttindi þeirra sem hafa fengið viðurkennt prófskírteini, eða eru með virka umsókn um slíkt frá Bretlandi fyrir áramót, hafa verið tryggð.

Ekki mun þurfa vegabréfsáritun til að heimsækja Bretland. Áfram verður hægt að nota sjálfvirk hlið á landamærunum.

Bráðabirgðafríverslunarsamningur hefur verið tryggður. Hann felur í sér óbreytt tollkjör í vöruviðskiptum til bráðabirgða.

Loftferðasamningur hefur verið tryggður. Hann tryggir að mestu sömu flugréttindi fyrir íslensk flugfélög og hafa verið vegna EES-samningsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert