Það getur verið mjög tvíbent að skylda fólk til þess að láta bólusetja sig við kórónuveirunni. Það getur hrakið fólk frá því að gera það, þar sem um inngrip í einkalíf þess er að ræða. Aftur á móti er hægt að skilyrða skylduna.
Þetta sagði Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, í Silfrinu á RÚV.
Með því að skilyrða skylduna myndi fólk til dæmis ekki fá aðgang að ákveðnum gæðum nema með bólusetningu. Þetta getur átt við um ferðalög eða aðgang að ýmiss konar þjónustu sem eðlilegt er að skilyrða, sagði hann í þættinum.
Hann sagði mjög mikilvægt fyrir fólk að hafa ástæðu til að ætla að menn hafi ekki verið að stytta sér leið við þróun bóluefnis við veirunni, í þeim skilningi að farið hafi verið á svig við ákveðnar kröfur. Þetta hafi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til að mynda talað um varðandi það að bíða fyrst eftir viðurkennningu Lyfjastofnunar Evrópu á bóluefninu áður en hægt verður að taka það í notkun hérlendis.
Vilhjálmur sagði ástandið vegna kórónuveirunnar hafa leitt áhugaverðan hlut í ljós, að þrátt fyrir uppgang popúlisma í heiminum hafi að stofnanir og sérfræðingar endurheimt traust. Það gerist svo lengi sem menn komi fram á trúverðugan hátt og af heilindum og gagnsæi. Taka þurfi mið af bestu upplýsingum hverju sinni og einnig þurfi menn að vera reiðubúnir að viðurkenna mistök. Allt þetta sé mikilvægt upp á traust. „Ég held að traustið sé límið í þessu,“ sagði hann.