Seldi miða fyrir um 11 milljónir

Sigga Beinteins.
Sigga Beinteins. mbl.is/Ásdís

„Ég var sátt með hvernig til tókst. Þetta var mikil áhætta þar sem ég stóð í þessu ein. Það tókst allavega, sem betur fer,“ segir Sigga Beinteins, söngkona. Vísar hún þar til jólatónleikanna „Á hátíðlegum nótum heima með þér“ sem haldnir voru á föstudagskvöld.

Tónleikarnir hafa verið haldnir í Eldborgarsal Hörpu undanfarin tíu ár fyrir fullu húsi. Þrátt fyrir faraldurinn ákvað Sigga að halda sig við upprunalegt plan, en fólki bauðst að kaupa miða á tónleikana í gegnum myndlykla Vodafone og Símans. 

Ellefu milljón króna kostnaður

Tónleikarnir voru afar glæsilegir en öllu var til tjaldað. Sjálf gerir Sigga ráð fyrir því að kostnaðurinn hafi verið um ellefu milljónir króna. Aðspurð segir hún að tekist hafi að ná upp í kostnað með sölu miða. 

„Þetta er mjög kostnaðarsamt en ég ákvað að kýla á þetta með tilheyrandi kostnaði. Ég gerði þetta á dýrari máta en ég hefði þurft að gera. Þetta var allavega á núlli og ég er sátt með það. Ég veit ekki alveg hvar þetta endaði.“

Skaraðist við söfnunarþátt

Á sama tíma og tónleikar Siggu fóru fram var söfnunarþáttur SÁÁ í beinni útsendingu á RÚV. Segir hún að salan hefði eflaust verið betri ef viðburðirnir hefðu ekki skarast. „Þetta var akkúrat á sama tíma þannig að það hefðu örugglega enn fleiri keypt miða ef svo hefði ekki verið,“ segir Sigga og bætir við að tónleikarnir verði áfram inni á leigunum. 

„Þetta verður áfram inni á leigunum. Vonandi munu fleiri kaupa miða fram að jólum. Ég er hins vegar mjög ánægð með viðtökurnar og heyri að fólk er alveg rosalega ánægt og þakklátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert