Ýmsir hafa gagnrýnt frumvarp um Hálendisþjóðgarð sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi og hefur meðal annars verið komið á fót undirskriftarlista netinu þar sem þeim er boðið að skrifa undir, sem mótmæla frumvarpi ráðherra. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og flutningsmaður frumvarpsins, svarar þessari gagnrýni í samtali við mbl.is.
Ásta Stefánsdóttir, sveitastjóri Bláskógabyggðar, ræddi við mbl.is í dag og sagði til að mynda að sveitastjórn Bláskógabyggðar hafi oft ályktað um þetta mál, sérstaklega um skipulagsvald sveitarfélaga.
Í umsögn Bláskógabyggðar um frumvarpsdrög ráðherra frá byrjun þessa árs segir: „Inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga er of mikið, þar sem stjórnunar- og verndaráætlanir gilda framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Aðkoma sveitarfélaga að stjórnun þeirra svæða sem liggja innan þeirra marka verður ekki nægjanleg miðað við áform í frumvarpsdrögunum.“
Þá segir Ásta jafnframt að margir aðilar, einstaklingar, fyrirtæki og félög, hafi lagt mikla vinnu í störf á því svæði sem fyrirhugað er að falli undir nýjan Hálendisþjóðgarð, til dæmis í formi landgræðslu, stígagerð, merkinga og annars. Verið væri að skemma frumkvæði heimamanna að þessari vinnu og ýta því til hliðar með aðkomu ríkisins að þessum verkefnum.
Spurður um viðbrögð við þessari gagnrýni segir umhverfis- og auðlindaráðherra að búið sé að bregðast við og mæta gagnrýni sveitarfélaga varðandi skipulagsvaldið í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi. Það sé því sérkennilegt að vísa til frumvarpsdraga sem séu frá fyrra ári, þau eigi ekki lengur við. Þá sé alveg ljóst að með þjóðgarði muni ríkið hvetja og styðja við frumkvæði heimamanna, enda kveði ein markmiðsgrein frumvarpsins einmitt á um samvinnu og samstarf um slíkt.
„Í fyrsta lagi er beinlínis kveðið á um aðkomu sveitarfélaga að stjórnun og stefnumótun Hálendisþjóðgarðs,“ segir hann og vísar í 8.- 12. greinar frumvarpsins sem kveða á um að þjóðgarðinum skuli skipt upp í sex rekstrarsvæði og á hverju svæði sé starfrækt umdæmisráð þar sem sitja fulltrúar sveitarfélaga í meirihluta. Í stjórn þjóðgarðsins sjálfs sitja svo fulltrúar sveitarfélaga úr stjórnum umráðasvæðanna sex og eru líka í meirihluta stjórnarmanna.
„Í öðru lagi átti ég í miklum samtölum við öll sveitarfélög sem fara með skipulagsmál á miðhálendinu um hvernig við getum nálgast skipulagsvaldið, af því þetta var megingagnrýni sveitarfélaganna á frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda á sínum tíma,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að kröfu sveitarfélaganna um að skipulagsvald þeirra yrði ekki skert hafi verið mætt í samráðinu og auðvitað sé mikilvægt að fulltrúar sveitarfélaganna séu hafðir með í ráðum, enda sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu.
Þá hafa einhverjir aðilar áhyggjur af fjármögnun Hálendisþjóðgarðs og spyrja hvaðan peningurinn sem þarf til rekstursins muni koma. Guðmundur Ingi segir að gert sé ráð fyrir fjármögnun í fjármálaáætlun stjórnvalda.
„Ég held að þetta sé það verkefni í náttúruvernd, sem búið er að tryggja fyrirfram hvað bestu fjármögnun fyrir. Í núgildandi fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir að bæta í rekstur þessa svæðis rúmum hálfum milljarði króna. Til viðbótar við það hafa verið tryggðar 450 millónir króna árlega frá 2023, til að ráðast í framkvæmdir í þeim sveitarfélögum sem eiga aðild að Hálendisþjóðgarðinum. Þá erum við sérstaklega að horfa til gestastofa eins og fyrir eru í Vatnajökulsþjóðgarði. Þessum gestastofum er ætlað að búa til aðdráttarafl fyrir ferðamenn bæði að vetri til og sumri. Það mun fjölga störfum úti á landi og þýðir líka að ferðamenn dvelja lengur á þeim svæðum sem gestastofurnar eru sem skapa tækifæri og möguleika fyrir ferðaþjónustu heima í héraði.“
Þá segir Guðmundur að fjárfestingarnar nýtist ekki bara þeim sem eru í ferðaþjónustu.
„Ég vil meina að við séum að fjárfesta með þessu verkefni í gríðarlegum tækifærum fyrir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, bæði vegna fjölgunar opinberra starfa og vegna starfa í ferðaþjónustu. Hálendisþjóðgarður verður líka atvinnutækifæri fyrir fólk í landbúnaði að auglýsa vörur sínar út á við vegna nálægðar við stærsta þjóðgarð í Evrópu.“
Ásta Stefánsdóttir lýsti einnig áhyggjum sem einhverjir hafa af lokunum á þjóðgarðssvæðinu eins og raungerst hefur í Vatnajökulsþjóðgarði. Hún segir að lokanir á einhverjum svæðum þar hafi verið gerðar í nafni umhverfisverndar en séu líklega tilkomnar vegna fjárskorts.
Guðmundur Ingi segir það beinlínis í markmiðum frumvarps um Hálendisþjóðgarð að auka aðgengi almennings að svæðinu. Hann neitar því þó ekki að komið hafi til lokana í Vatnajökulsþjóðgarði.
„Vissulega eru reglur í þjóðgörðum. Það hefur komið til lokana til að vernda náttúruna og í einhverjum tilfellum var samkomulag um að ekki hafi verið þörf á að nota einhverja slóða. En auðvitað er deilt um sumar þessara ákvarðana, en þá skiptir líka máli að þær eru teknar með aðkomu heimafólks og hagsmunaaðila í gegnum hið dreifðstýrða stjórnfyrirkomulag sem lagt er upp með í umdæmisráðum og í stjórn þjóðgarðsins við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar.
Eitt af markmiðum þjóðgarða er að auðvelda aðgengi almennings að náttúrunni en án þess auðvitað að náttúran spillist. Hluti af markmiðum Hálendisþjóðgarðs er að fólk geti notið náttúru og sögu svæðisins og stuðla að því að landsmenn geti stundað útivist á svæðinu.
Ég skil samt vel að fólk sé hrætt við að missa eitthvað sem við höfum í dag. Þeir sem ég hef rætt við, hagsmunaaðilar, sveitarfélög, félagasamtök og aðrir, þeim þykir öllum óskaplega vænt um þetta svæði og það er eitthvað sem ég samsama mig algjörlega við. Hins vegar er ekki markmiðið með Hálendisþjóðgarði að taka frá fólki það sem það nýtur í dag.“
Þá ræddi mbl.is við Sveinbjörn Halldórsson, formann Ferðaklúbbsins 4X4, sem fagnaði því að frumvarp um Hálendisþjóðgarð væri komið fram, allir hljóti að vera sammála um að vernda beri ósnortna náttúru Íslands. Hann sagði þó að ríkja verði sátt um málefni sem þetta, sem snúa að þriðjungi flatarmáls Íslands hvorki meira né minna.
Hann sagði að frumvarpið sem nú lægi fyrir Alþingi væri ekki fullnægjandi. Hann sakaði ráðherra um flýta sér um of með frumvarpið í gegnum þingið og sagði það notað í einhverjum „pólitískum show-business.“
Þessu kveðst ráðherra vera ósammála.
„Málið er búið að vera í undirbúiningi í nær fimm ár í stjórnkerfinu,“ segir hann.
Hann bætir við að skipaðir hafi verið tvær nefndir til að vinna að undirbúningi máls, hin síðari þverpólitísk nefnd þingmanna og sveitarstjórnarfólks og mikið samráð hafi verið haft við öll þau sem Hálendisþjóðgarður kann að snerta. Það hafi verið uppúr þeirri vinnu sem frumvarpið var unnið.
„Nýjasta skoðanakönnun sem ég veit af kemur fram í meistararitgerð um þessi mál, sem kom út fyrr á árinu, og þar segjast 60% aðspurðra vera fylgjandi hugmyndum um Hálendisþjóðgarð en aðeins 10% andvígir sem er nokkuð afgerandi.
Að mínu mati erum við að leggja fram frumvarp sem er afsprengi mikil samtals og mikils undirbúnings.“