Talsverður gangur er kominn nú þegar í verslun fyrir jólin, fyrr en kaupmenn bjuggust við.
Engar algildar skýringar eru á þessu, en kaupmenn benda á að vegna gildandi samkomutakmarkana hafi fólk ef til vill rýmri tíma en áður. Noti því svigrúmið þessa dagana og ljúki við þau innkaup sem hægt sé. Sprenging kortér fyrir jól sé ólíkleg.
„Það hefur verið talsvert líf í öllum viðskiptum hjá okkur síðustu vikur,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. „Jólabaksturinn er greinilega hafinn á mörgum heimilum; hveiti, sykur, egg og smjörlíki seljast nú sem aldrei fyrr. Á sama tíma fer minna út af tilbúnum kökum svo tilhneigingin er greinilega sú að fjölskyldur njóta samverunnar með því að baka í eldhúsinu heima. Sala á gjafavörum hefur einnig verið talsverð, svo sem bókum, en í ár eru Samkaup með um 350 titla í boði. Útgefendur eru fyrir þessi jól einfaldlega með góðar bækur sem seljast vel af því þær ná til lesenda,“ segir Gunnar Egill í umfjöllun um jólaverslunina í Morgunblaðinu í dag.