Atvinnuleysi virðist ekki vera að aukast jafn hratt nú og á fyrri mánuðum, samkvæmt fyrstu tölum Vinnumálastofnunar. Þær benda til þess að umsóknir um atvinnuleysisbætur hafi verið færri en í októbermánuði.
Fregnir af endurráðningum eru þegar farnar að berast en 66 starfsmenn bílaleigunnar Hertz verða endurráðnir, að því er Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri fyrirtækisins, segir í Morgunblaðinu í dag. Þeim hafði verið sagt upp í septembermánuði.
Vegna algjörs tekjufalls í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn fór að láta á sér kræla neyddist fyrirtækið til að ráðast í hópuppsagnir og var nær öllum starfsmönnum sagt upp. Sigfús telur bjartari tíma fram undan og segir að mikil bjartsýni sé á markaðnum. Fréttir af bóluefni hafi haft jákvæð áhrif á markaðinn.
„Það er ljós við enda ganganna,“ segir Sigfús sem telur þó erfitt að spá fyrir um það hvenær ferðamenn fari aftur að láta sjá sig hérlendis.