Tugir sveitarfélaga og félagasamtaka um allt land hafa sótt um starfsleyfi fyrir brennur um áramót og á þrettándanum til viðkomandi heilbrigðiseftirlits.
Enn er allt á huldu hvort brennur verða heimilaðar. Það ræðst af því hvaða reglur verða í gildi og túlkun yfirvalda.
Heilbrigðiseftirlit viðkomandi umdæma gefa út starfsleyfi fyrir brennur. Áður en til þess kemur þarf umsókn að hafa verið auglýst í fjórar vikur. Tugir slíkra auglýsinga frá sveitarfélögum og félagasamtökum um allt land eru nú í kynningu og rennur frestur til athugasemda vegna áramótabrenna í flestum tilvikum út fyrir jól. Þar á meðal eru tíu áramótabrennur sem Reykjavíkurborg hefur sótt um, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.