Lögreglustjórinn á Suðurnesjum staðfestir í samtali við mbl.is að mál konu sem vildi hvorki fara í sýnatöku né sóttkví við komuna til landsins fyrir helgi sé til skoðunar hjá embættinu. Lögreglan á Suðurnesjum er á hverjum tíma með einhver mál til skoðunar sem varða grun um að einstaklingar hafi brotið sóttvarnareglur.
Eins og áður hefur verið greint frá í fjölmiðlum fór Elísabet Guðmundsdóttir lýtaskurðlæknir hvorki í sóttkví né sýnatöku þegar hún kom til landsins frá Danmörku á föstudag. Þvert á móti var hún mætt á mótmæli á Austurvelli daginn eftir ef marka má myndband á Facebook-síðu hennar.
Spurður um það hvort lögreglan geti skipað fólki í sýnatöku eða sóttkví við komuna til landsins segist Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ekki treysta sér til þess að svara því eins og er.
Hann gat ekki veitt frekari upplýsingar um mál konunnar þar sem það er í rannsókn.
„Við erum auðvitað með í skoðun á hverjum tíma grun um einstaklinga sem hafa brotið sóttvarnareglur. Þetta mál er af svipuðum toga. Þessi mál eru öll til skoðunar, hvort sem það er hér eða annars staðar,“ segir Úlfar.
Það hefur þó ekki bætt í slík brot að undanförnu, að hans mati.
Samkvæmt núverandi reglum á landamærunum er þeim sem hingað koma gert að fara annað hvort í tvöfalda sýnatöku með nokkurra daga sóttkví á milli eða 14 daga sóttkví án sýnatöku.
Hvernig er tekið á því þegar fólk velur sóttkví umfram sýnatöku?
„Þá velur það að fara í sóttkví og gefur upp dvalarstað. Ef lögreglu lýst þannig á að líkur séu á því að viðkomandi muni ekki virða sóttvarnareglur þá er ekki ólíklegt að það sé haft eftirlit, það sé kannað hvar viðkomandi dvelur í sóttkví,“ segir Úlfar.