Þjóðgarðurinn virðist vera „pólitísk hrossakaup“

Á svæði hálendisþjóðgarðar.
Á svæði hálendisþjóðgarðar. Rax / Ragnar Axelsson

Það er mat stjórnar FETAR, hagsmunasamtaka ferðaþjónustufyrirtækja, að vinna þurfi frumvarp um hálendisþjóðgarð meira. Þá megi alls ekki hleypa málinu í gegn án málefnalegrar umræðu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum. 

„Það hefur legið fyrir um langa hríð að samþætta þarf útivist og ferðaþjónustu annarsvegar og náttúruvernd hinsvegar komandi kynslóðum til heilla og farsældar. Það er mat stjórnar FETAR að frumvarp um miðhálendisþjóðgarð nái ekki að sætta þau sjónarmið,“ segir í tilkynningunni. 

Aðgengi mun gjörbreytast

Þar kemur enn fremur fram að ýmislegt megi betur fara. „Stjórn FETAR hefur skoðað frumvarp umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð vandlega og metið reynslu af rekstri þjóðgarða og friðlýstra svæða. Margt hefur verið vel gert en ýmislegt má betur fara sem hafa verður í huga við stofnun svo víðfeðms verndarsvæðis.“

Þá segja samtökin að með hálendisþjóðgarði verði grundvallarbreyting á stjórnsýslu svæðisins og lög og reglur um umgengni og aðgengi mun gjörbreytast og hafa ótvíræð áhrif á ferðafrelsi landsmanna. 

Skiptimynt ríkisstjórnarflokka

Það er mat samtakanna að miðhálendisþjóðgarður sé í raun skiptimynt ríkisstjórnarflokka. Með þessu nái ákveðinn ríkisstjórnarflokkur sínu fram gegn því að annað verði gefið eftir. 

„Miðhálendisþjóðgarður virðist að miklu leyti vera pólitísk hrossakaup. Hálendisþjóðgarður er risavaxið mál sem varðar þjóðarhag til allrar framtíðar og því ótækt að hálendið, ferðafrelsi og perlur íslenkrar náttúru verði skiptimynt í valdatafli stjórmálaflokka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert