„Viðbrögðin hafa verið ótrúleg“

Uppgreiðslugjald var dæmt ólöglegt.
Uppgreiðslugjald var dæmt ólöglegt. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það í fjármálaráðuneytinu hvort að dómi þar sem uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs var dæmt ólöglegt verði áfrýjað. Lögmaður segir að mikil viðbrögð hafi borist við dómnum. 

Fjármálaráðuneytið er í forsvari fyrir málið þó umsýsla lánanna sé hjá Mannvirkja og húsnæðisstofnun. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu stendur nú yfir vinna við það að meta dóminn, afleiðingar hans og viðbrögð við honum. Þeirri vinnu muni ljúka síðar í vikunni. Mun þá liggja fyrir hvort málið fari fyrir Landsrétt.  

Fyrirspurnum rignir inn 

Þórir Skarphéðinsson, lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, sem rak málið fyrir hönd umbjóðanda síns segir að málið hafi ótvírætt fordæmisgildi. Í samtali við mbl.is segir hann að fyrirspurnum frá lántakendum um málið hafi rignt yfir um helgina. „Það hafa komið fleiri tugir fyrirspurna um málið og við höfum verið alla helgina að svara þessu. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg. Enda er þetta mjög stór hópur,“ segir Þórir. 

Þórir Skarphéðinsson.
Þórir Skarphéðinsson.

Eins og fram kom á mbl.is féll dómur í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag. Fram kem­ur í svari við fyr­ir­spurn Ólafs Ísleifs­son­ar, þing­manns Miðflokks­ins, á Alþingi árið 2018 að tæp­lega 6.400 lánþegar greiddu upp­greiðslu­gjaldið á ár­un­um 2008-2018. Í heild tóku tæp­lega 13.900 lánþegar lán hjá ÍLS þar sem lán­töku­gjalds var kraf­ist. Úr þeim gögn­um má lesa að hags­mun­ir tengd­ir lán­um með upp­greiðslu­ákvæði séu 16 millj­arðar króna árið 2018. Gera má ráð fyr­ir því að þess­ir hags­mun­ir séu hærri í krón­um talið árið 2020.   

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert