14 mánuðir og 96 milljóna sekt fyrir skattabrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Armando Luis Rodriguez í 14 mánaða fangelsi og til að greiða 96 milljónir í sekt til ríkissjóðs vegna meiri háttar skatta- og bókhaldslagabrotum, sem og peningaþvætti. Voru brotin framin í tengslum við sjálfstæðan atvinnurekstur hans.

Þetta er í annað skiptið á rúmlega ári sem Armando hlýtur dóm í tengslum við skattalagabrot, en í fyrra var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir aðild sína að stórfelldu skattalagabroti sem tengdist rekstri fyrirtækisins SS verks ehf., en það félag var í eigu Sigurðar Kristinssonar, sem sjálfur var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að Skáksambandsmálinu svonefnda, sem tengdist kókaínsmygli.

Armando er í málinu núna fundinn sekur um að hafa í eigin rekstri ekki gert grein fyrir tæplega 66 milljón króna tekjum árin 2016 og 2017 og þannig komist hjá því að greiða tæplega 30 milljónir í tekjuskatt og útsvar. Auk þess að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á 2,3 milljónir árið 2016.

Var hann jafnframt fundinn sekur um peningaþvætti með því að hafa ráðstafað 32,3 milljóna ávinningi í eigin þágu.

Armando játaði skattalagabrot sín, en neitaði ákærulið um peningaþvætti. Sagði hann fjármunina hafa farið í starfsmannakostnað og rekstur, en ekki hafa gögn um það. Kannaðist hann þó við að hafa millifært 17,3 milljónir af þessu inn á eigin reikning, en að meirihluti þess hafi farið í að greiða laun „svart“.

Dómurinn taldi Armando þó sekan af öllum ákæruliðum og dæmdi hann sem fyrr segir í 14 mánaða fangelsi og til að greiða 96 milljónir í sekt, en það nemur um þrefaldri upphæð sem hann var fundinn sekur um að skjóta undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert