Gerðar hafa verið minnst fjórar tilraunir til innbrota í skartgripaverslunum í miðborginni undanfarinn hálfan mánuð. Talið er að sami maðurinn sé þar að verki, en honum hefur tekist að stela skartgripum að andvirði þremur milljónum króna hið minnsta.
Kristín Guðbrandsdóttir Jezorski, dóttir gullsmiðsins Guðbrands J. Jezorski, starfar í verslun hans á Laugavegi. Segir hún í Morgunblaðinu í dag, að gerðar hafi verið þrjár tilraunir til ráns í versluninni. Ein í febrúar og tvær undanfarnar vikur.
„Það var eitt rán í febrúar um hábjartan dag en síðan voru tvö núna með viku millibili þar sem rúðan var brotin,“ segir Kristín og bætir við að sést hafi til sama mannsins brjóta rúðu verslunarinnar í skjóli nætur. „Þetta var sami maðurinn sem kastaði gangstéttarhellu í rúðuna og tæmdi svo útstillinguna. Hann notaði sama grjótið í báðum tilvikum og það sást til hans. Það eru öryggismyndavélar á byggingum nærri versluninni og þar náðist hann á mynd,“ segir Kristín sem áætlar að andvirði þýfisins sé í kringum þrjár milljónir króna.