Þrátt fyrir að nýjar sóttvarnareglur, sem taka gildi á fimmtudag, geri ráð fyrir að leikhús geti tekið til starfa á ný, segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, að þær muni ekki hafa áhrif á sýningarhald í leikhúsinu fyrir jól.
„Þetta er ný sviðsmynd og munum við nú taka stöðuna,“ segir Brynhildur í samtali við mbl.is.
„Ljóst er að við getum hafið æfingar á verkum, þar sem fleiri en 10 manns koma saman, og er það vel. Hins vegar má glögglega sjá að sá stakkur sem okkur er sniðinn er verulega þröngur, Tveggja metra reglan er verulega íþyngjandi fyrir okkur og samkvæmt reglugerðinni er óheimlilt að hafa hlé á sýningum. Þetta þarf allt að skoða en vissulega skref í rétta átt.“
Í nýju reglugerðinni, sem gildir frá 10. desember til 12. janúar, segir að sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir verði heimilir með allt að 30 manns á sviði, bæði á æfingum og sýningum. Heimilt verður að taka á móti allt að 50 fullorðnum gestum, en þeir skulu vera sitjandi og skylt að nota grímu, og allt að 100 börnum, fæddum 2005 og síðar. Sæti skulu númeruð og skráð á nafn. Hvorki hlé né áfengissala verða leyfileg.
Brynhildur segir ákveðin tækifæri felast í þessum tilslökunum.
„Við getum hafið barnastarf, en Borgarleikhúsið hefur undanfarin ár boðið öllum leikskólabörnum, 5. og 10. bekkingum í Reykjavík í leikhús og engin breyting verður á því í ár.“
Hún segir að því sé unnt byrja á því að skipuleggja leikskólasýningu ársins, sem í þetta sinn er í leikstjórn Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur, sem einnig er höfundur sýningarinnar. Leikarar eru Rakel Björk Björnsdóttir og Rakel Ýr Stefánsdóttir.