Þeir sem voru skráðir í félag Zúista, sem var lengi skilgreint sem trúfélag, á þeim grundvelli að þeir fengju endurgreiðslu sóknargjalda geta ekki sótt um einkakröfu í fjársvikamáli á hendur bræðrunum sem að félaginu stóðu, að sögn saksóknara.
Eins og mbl.is greindi frá í gær þá hafa bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við starfsemi trúfélagsins Zuism. Þeir eru sakaðir um að hafa svikið úr ríkissjóði um 85 milljónir sem greiddar voru út í formi sóknargjalda án þess að hafa uppfyllt skilyrði sem skráð trúfélag.
Zuism var upphaflega stofnað af bræðrunum, en síðar var reynd yfirtaka þess af hópi fólks sem hafði það að markmiði að endurgreiða sóknarbörnum sínum sóknargjöldin. Bræðurnir náðu hins vegar að halda tökum á félaginu sem skráðir forsvarsmenn rekstrarfélags Zuism. Sögðu þeir þó að áfram yrði staðið að því að endurgreiða sóknargjöld, en það var kallað Amargi og sögð einn af helstu helgisiðum Zúista. Í ákæru héraðssaksóknara kemur hins vegar fram að lítið hafi verið af skipulögðum viðburðum eða trúariðkun. „Í raun fór hins vegar ekki fram á vegum trúfélagsins nein eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi,“ sagði í ákærunni.
„Þetta sakamál tekur enga beina afstöðu til þess hvort þessi endurgreiðsla á sóknargjöldum sem svo var nefnd hafi verið réttmæt eða ekki í eðli sínu,“ segir Finnur Vilhjálmsson saksóknari spurður um mögulegar einkakröfur í fjársvikamálinu.
Í þessu samhengi er vert að nefna að samkvæmt áliti umboðsmanns alþingis árið 2014 er öllum frjálst að standa utan trúfélaga og að enginn sé skyldur til að inna af hendi persónulega gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
Umboðsmaður taldi að fyrir lægi sú afstaða löggjafans að fjármögnun lífsskoðunar- og trúfélaga af hálfu ríkisins skyldi þannig háttað að þeim væri ætluð ákveðin hlutdeild í álögðum tekjuskatti en sérstakur skattur væri ekki lagður á í þeim tilgangi. Því er hæpið til að byrja með að tala um endurgreiðslu sóknargjalda.
Meint fjársvik tengjast þá í raun eingöngu ríkissjóði?
„Þar stendur kannski hnífurinn í kúnni, vegna þess að málið varðar bara fjársvik gegn ríkissjóði, að félagið hafi ekki uppfyllt skilyrði í trúfélagalögunum til að hljóta skráningu og halda skráningu sem trúfélag. Það er það sem þetta mál varðar,“ segir Finnur.
Hann tekur því ekki afstöðu til þess hvort þeir sem voru skráðir í Zuism ættu að geta höfðað mál á hendur félaginu.
„Við tökum enga afstöðu til þess og höfum í raun og veru enga ástæðu til að taka afstöðu til þess. Það stendur í raun alveg utan þessa máls.“