„Þetta var rosa sjokk fyrst“

Tómas og Elva skapa saman tónlist.
Tómas og Elva skapa saman tónlist. Ljósmynd/Aðsend

Ungt íslenskt par sem gaf út lagið Lifeline ásamt Pálma Ragnari í byrjun árs grunaði ekki að nokkrum mánuðum síðar hefði fólk víðsvegar að spilað það rúmlega 8,5 milljón sinnum á streymisveitunni Spotify. Lagið er nú spilað um 40.000 sinnum á dag og segir Tómas Welding, sem stendur að laginu ásamt Elvu Bjarteyju Aðalsteinsdóttur, að það hafi sprungið út á einni nóttu.

Útgáfufyrirtækið Alda Music, í samstarfi við Orchard, hjálpaði þeim Tómasi og Elvu töluvert í því að koma laginu á framfæri en sama dag og það var gefið út var lagið komið inn á tæplega 30 „New Music Friday“-spilunarlista á Spotify víðsvegar um heim. Eftir það hefur boltinn ekki hætt að rúlla.

„Í heild vorum við á einhverjum 26 eða 27 „New Music Friday“-listum strax á fyrsta degi. Lagið fékk strax mikla dreifingu og spilun víðsvegar út af þessu. Síðan komumst við inn á stóra lista á Spotify og fólk fór að dreifa laginu og senda manni skilaboð og alls konar um lagið,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

„Þetta sprakk bara skringilega mikið út á einni nóttu og það veit enginn almennilega af hverju. Þetta klikkaði bara með Spotify.“

Bolti sem stækkar og stækkar

Tómas segir að það skipti miklu máli að fá strax mikla spilun á Spotify ef lag á að ná miklum vinsældum. Til að byrja með var Lifeline spilað 14.000 sinnum daglega, svo 20.000 sinnum og loks 40.000 sinnum.

„Ef lagið tekur mjög hratt af stað eins og þetta og lendir á svona mörgum listum fer boltinn bara að rúlla á milljón og rúllar bara eins og snjóbolti, stækkar og stækkar með tímanum. Þetta er búið að vera í stöðugri spilun núna alveg síðan við gáfum það út í febrúar og bara búið að hækka líka sem er svolítið klikkað,“ segir Tómas.

Hann segir að til að byrja með hafi þau Elva verið mjög hissa á athyglinni sem lagið fékk.

„Þetta var rosa sjokk fyrst, við trúðum því fyrst ekki hvað væri að gerast, en núna er þetta orðið svo mikið norm sem er bæði gott og slæmt vegna þess að við erum búin að vera með lagið úti núna í næstum því ár. Maður er bara svolítið smeykur að gefa út fleiri lög vegna þess að maður er með svo ótrúlega miklar væntingar,“ segir Tómas.

Framtíðin er björt hjá þessu unga tónlistarfólki en þau eru …
Framtíðin er björt hjá þessu unga tónlistarfólki en þau eru með þónokkur lög í vinnslu. Ljósmynd/Aðsend

Þjóðverjar spila lagið mest

Þjóðverjar virðast hrifnastir af laginu en þar í landi er það mikið spilað, rétt eins og í Austurríki, Sviss og Bandaríkjunum, og auðvitað á Íslandi.

„Þetta eru löndin sem hafa verið að spila virkilega mikið, sérstaklega Þýskaland, það er rosalega mikið þar.“

Kórónuveirufaraldurinn hefur reynst mörgum listamönnum erfiður, helst vegna þess að tónleikahald er nær ómögulegt vegna samkomu- og ferðatakmarkana. Tómas segir að þau Elva nýti tímann nú í að búa til nýja tónlist í hljóðveri. Þá er stefnan sett á útlönd þegar faraldurinn er yfirstaðinn.

Eins og ljóst er orðið hjálpaði það Tómasi, Elvu og Pálma mikið að komast inn á spilunarlista á Spotify. Þá segir Tómas einnig að teymið sem stóð að útgáfunni hafi skipt verulega miklu máli. 

Aðspurður segir Tómas að þegar spilanirnar séu svo margar þá greiði Spotify ágætlega en Spotify greiðir rúma hálfa krónu fyrir hverja spilun. Tekjur af Lifeline eru því um 20.000 krónur daglega.

Hefur helst heyrt af svipuðu hjá stórstjörnum

Tómas segir sjaldgæft að lög óþekktra listamanna fari inn á svo marga „New Music Friday“-spilunarlista.

„Þetta gerist mjög sjaldan og ég hef ekki heyrt þetta gerast hjá neinum nema kannski einhverjum stórstjörnum sem fara sjálfvirkt inn á listana. Svo þetta er bara mikil heppni en líka mjög góð tímasetning á útgáfu.“

Þau Elva höfðu litlar væntingar til lagsins. „Við sömdum þetta saman og þótti mjög vænt um lagið. Við bjuggumst ekki við því að annað fólk myndi horfa á það eins og við horfum á það. En svo gerist þetta og það er bara geggjað að sjá að annað fólk nær að tengja við þetta. Sumir horfa á þetta sem mjög sorglegt lag og aðrir sem danslag.“

En hvernig myndir þú lýsa laginu?

„Lifeline er svona melankólíulag. Það er ekki hamingjuríkur texti í því en samt sem áður með grípandi stef og yfirhöfuð er frekar góð tilfinning í laginu sjálfu. Ég held að það fari svolítið eftir því hvernig manni líður þegar maður hlustar á það.“

Framtíðin er björt hjá þessu unga tónlistarfólki en þau eru með þónokkur lög í vinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert