Biðlistar og bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu var meginstef í fyrirlestrum þeirra sem fluttu erindi á geðheilbrigðisþingi sem haldið var í morgun. „Biðin er of löng,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, og vísaði þar til geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla aldurshópa. Ekki síst börn og ungmenni.
Þórunn hefur áhyggjur af einmanaleika og segir of lítið gert til þess að bæta hag fólks sem býr eitt. Fólk sem kannski býr við það á Covid-19-tímum að enginn kemur og enginn hringir, dag eftir dag.
Eitt af því sem Danir hafi gert er að mæla með notkun spjaldtölva. Til að mynda þegar setið er að snæðingi. Í stað þess að sitja einn þá er hægt að spjalla við aðra í gegnum spjaldtölvuna um daginn og veginn, fá uppskriftir og fleira.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðaði til vefþingsins og samráðs um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.
Þinginu lauk á tólfta tímanum en þá hófust lokaðar vinnustofur þar sem þátttakendur vinna að mótun framtíðarsýnar með hliðsjón af áherslum heilbrigðisstefnu og forgangsraða aðgerðum til að vinna að framgangi hennar.
Heilbrigðisráðuneytið mun vinna úr afrakstri vinnustofanna og leggja fram drög að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem verður kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, ásamt aðgerðaáætlun til næstu ára.
Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2019. Til að lýsa framtíðarsýninni eru í stefnunni sett fram sjö lykilviðfangsefni sem eru: Forysta til árangurs, rétt þjónusta á réttum stað, fólkið í forgrunni, virkir notendur, skilvirk þjónustukaup, gæði í fyrirrúmi og hugsað til framtíðar. Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum þarf að taka mið af þessum lykilviðfangsefnum heilbrigðisstefnunnar.
Bóas Valdórsson, sálfræðingur við Menntaskólann í Hamrahlíð, tók í sama streng og Þórunn og aðrir sem tóku til máls á þinginu varðandi biðlista. Hann segir biðlista eitur í sínum huga. Að fólk þurfi að bíða í eitt til eitt og hálft ár eftir þjónustu sem það á rétt á sé óafsakanlegt.
Geðheilbrigðisþjónusta er líkt og Bóas segir alvöruheilbrigðisþjónusta og á ekki að mæta afgangi. Hann minnti áheyrendur á að aldrei yrði beðið í eitt ár eða meira að skoða hvort einhver væri beinbrotinn.
Mikilvægt sé að ungt fólk sem ekki telst börn í skilningi laga, það er á aldrinum 18-25 ára, eigi greiðan aðgang að greiningum á algengum hlutum eins og ADHD og námserfiðleikum. Oft er fólk að átta sig á því á þessum aldri hvað það er sem það er að fást við, svo sem ADHD eða námserfiðleikar. Eitthvað sem var ekki greint þegar þau voru yngri.
Ástandið núna sé ótækt og óboðlegt enda ekki leti eða leiðindi sem þetta unga fólk er að fást við heldur skilgreindir erfiðleikar sem hafa hamlandi áhrif á líf þessa hóps.
Bóas hvetur til þess að í boði sé góð stoðþjónusta í framhaldsskólum og hún standi styrkari fótum þar sem og í háskólum. Þetta getur haft áhrif á líðan og brotthvarf úr námi. Er mikilvægt forvarnastarf. Hann bendir á mikilvægi geðfræðsluefnis og að það þurfi að uppfæra það jafnt og þétt þannig að það tali inn í tíðarandann á hverjum tíma.
Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri geðræktar hjá embætti landlæknis, segir að til að sinna geðrækt þurfi að fara út fyrir heilbrigðiskerfið. Í skólum og framhaldsskólum eru tækifæri til að efla börn og færni þeirra til að ráða við þær áskoranir sem allir þurfa til að efla geðheilsu. Eins að finna öll þau börn og ungmenni sem þurfa aðstoð strax.
Hún nefndi sem dæmdi að geðrækt verði sérstök námgrein alveg eins og íþróttir og að kennarar fái tækifæri til að sérhæfa sig á þessu sviði líkt og í öðrum námsgreinum. Íslendingar standi öðrum norrænum þjóðum að baki þegar kemur að undirbúningi fyrir foreldrahlutverið. Ísland er eina norræna ríkið sem ekki býður upp á námskeið á þessu sviði fyrir verðandi foreldra. Eins séu Íslendingar langt á eftir varðandi fjölskyldu- og pararáðgjöf.
Það þurfi að taka snemmtæka íhlutun til gagngerrar endurskoðunar og ekki hægt að tala um snemmtæka íhlutun hér vegna langra biðlista segir Sigrún. Eins þurfi að tryggja samfellu í þjónustu. Til að þau detti ekki á milli kerfa þegar þau hætta að vera börn.
Snemmtæk skilvirk þjónusta í samstarfi allra kerfa. Eitthvað sem við verðum að taka fastari tökum. Það sem við köllum snemmtæka þjónustu, það er nokkurra vikna bið, er það sem önnur lönd kalla biðlista. Eitthvað sem þau kannast ekki við í þessu mæli og okkur finnst eðlilegt. Ekki gott og þetta verður að laga. Efla og laga afkastagetu kerfanna. Hægt að reikna út og eins stoppa í og loka götunum. T.d. varðandi börn. Að það sé samfella í þjónustunni.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fór yfir þau úrræði sem í boði eru og hver staðan var áður. Hún segir einhug ríkja meðal ráðherra að vinna saman að geðheilbrigðismálum. Alltaf sé hægt að gera betur og mikil vægt að fara yfir stöðuna nú.
Í vor hafi 540 milljónir verið settar í að bæta geðheilbrigðisúrræði og í fjárlagafrumvarpinu sem nú er fyrir þinginu er sama fjárhæð lögð til í geðheilbrigðismál.
Tímabundið geðráð hafi starfað síðan í apríl og Geðhjálp hafi lagt til að slíku geðráði verði komið á til frambúðar. Það er nú til skoðunar í ráðuneytinu.
Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, segir að leggja þurfi áherslu á aukin gagnreynd vinnubrögð og að fjármagnið sé aðeins um 11% á meðan umfang geðheilsu innan heilbrigðiskerfisins sé 30%. Hann segir að gera þurfi úttekt á geðheilbrigðiskerfinu. Í kjölfar Arnarholtsmálsins hafi komið fjölmargar ábendingar til Geðhjálpar um það sem betur má fara. Einkum frá starfsfólki á geðsviði.
Að sögn Héðins á að hætta þvingunarúrræðum og nauðungarvistun. Jafnframt þurfi að stórauka fræðslu til foreldra og auka atvinnutækifæri og virkniátak í anda IPS-hugmyndafræðinnar.
Fjölmörg erindi voru flutt á geðheilbrigðisþinginu og er hægt að hlusta á þau hér.