Ekki bara fyrir „einhverja kroppatemjara“

Linda Björk Hilmarsdóttir, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Hress.
Linda Björk Hilmarsdóttir, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Hress. Ljósmynd/Olga Björt Þórðardóttir

„Manni sárnar þessi mismunun,“ segir Linda Hilmarsdóttir eigandi heilsuræktarstöðvarinnar Hress um ákvörðun stjórnvalda um að heilsuræktarstöðvar skyldu halda dyrum sínum lokuðum áfram vegna Covid-19. Linda segir að aldrei hafi komið upp smit hjá Hress og kallar eftir því að landlæknir horfi á lýðheilsu þjóðarinnar með heildrænni hætti en þeim að einblína einungis á möguleg veirusmit. 

„Heilsuræktarstöðvar eru ekki bara fyrir einhverja kroppatemjara, það eru ekki allir bara að kroppast þarna í kjörþyngd. Við erum með svo mikið af viðskiptavinum sem er lífsspursmál að koma til okkar,“ segir Linda. 

Hress skoðar nú stöðu sína lagalega vegna lokunarinnar og segir Linda að til greina komi að höfða mál á hendur ríkinu vegna þeirra mánaða sem stöðin hefur þurft að vera lokuð. 

Hress hefur orðið fyrir hátt í 75% tekjutapi á þeim mánuðum sem lokanir hafa staðið yfir og hefur fyrirtækið ekki enn hlotið neina lokunarstyrki úr ríkissjóði. Linda rekur stöðina ásamt eiginmanni sínum en þau eru áhyggjufull yfir stöðunni. „Við höfum lagt lífið okkar í reksturinn,“ segir Linda.  

Við erum til staðar fyrir allt þetta fólk

Hún bendir á að árlega falli mikill fjöldi fólks frá úr lífstílssjúkdómum en innan heilsuræktarstöðva vinni fólk einmitt að því að fyrirbyggja slíka sjúkdóma. 

„Það eru bara svo margir lífstílssjúkdómar sem herja á fólk. Ég vil bara minna á það. Ég hefði viljað sjá Ölmu landlækni huga meira að öðrum sjúkdómum en bara Covid-19. Það er fólk þarna sem er búið að missa vinnuna, er með stoðkerfisvandamál, það er einmana, það hefur lent í áföllum, það er atvinnulaust. Við erum til staðar fyrir allt þetta fólk,“ segir Linda.

Viðskiptavinir hennar hafa deilt með henni frásögnum af vanlíðan vegna þess að þeir komast ekki í Hress. Linda bendir á að það sé ekki á allra færi að fara út í kuldann og hreyfa sig. 

„Ég hefur heyrt frá mörgum sem til dæmis hafa verið með langvinn stoðkerfisvandamál sem eru komnir aftur á byrjunarreit. Það fólk hefur verið að vinna í sér í mörg ár,“ segir Linda.

Fréttirnar í gær áfall

Í gær tilkynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að reglur um lokun líkamsræktarstöðva/heilsuræktarstöðva myndu gilda til 12. janúar n.k. Þrátt fyrir það fengju sundstaðir að opna. Linda fagnar því að sundlaugar, sjúkraþjálfarar og hnykkjarar megi bjóða fram þjónustu sína. 

„Það mun hjálpa mjög mörgum en að fara í heilsuræktarstöð er venjubundin hreyfing svo margra. Þú getur ekki sagt öllum að fara út eða gera heimaleikfimi.“

Linda segir að það hafi verið algjört áfall þegar þau fengu fréttirnar um áframhaldandi lokun í gær. Þá hafi nokkrir ákveðið að hætta í viðskiptum við stöðina. Hún bendir á að tapið sem stöðin verður fyrir vegna lokana muni teygja sig inn í næstu mánuði og jafnvel ár þar sem stöðin eigi eftir að bæta viðskiptavinum sínum þeirra tjón, m.a. með framlengingu ýmissa áskrifta. 

„Við erum lítil og vinaleg stöð. Viðskiptavinirnir okkar eru fjölmargir og vinalegir og hafa tekið slaginn með okkur. Það verður dásamlegt að hitta þau aftur þegar við fáum að opna,“ segir Linda sem þrátt fyrir allt horfir bjartsýnum augum á framtíðina. 

„Við ætlum að komast út úr þessu. Við erum búin að vera  til síðan 1987. Við höfum borgað okkar skatta og staðið við okkar skyldur alla tíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert