Kínversk yfirvöld hafa tilkynnt Matvælastofnun að frá og með 1. janúar næstkomandi taki nýjar reglur gildi um innflutning á sjávarafurðum til Kína. Ný heilbrigðisvottorð þurfa að liggja fyrir um vöruna og eiga þau að taka til allrar framleiðslukeðju afurðanna.
Heimsfaraldur kórónuveiru er sagður ástæða nýrra reglna. Við breytingar á heilbrigðisvottorði hafa yfirvöld í Kína einnig sett fram kröfur um upplýsingar um viðbrögð hérlendis vegna varna gegn kórónuveirunni til að forðast dreifingu smits með afurðum og umbúðum. Sambærileg erindi hafa m.a. borist Norðmönnum.
Þorvaldur H. Þórðarson, sviðsstjóri markaðsmála hjá Matvælastofnun, segir að unnið sé að málinu hjá Mast og leitað hafi verið eftir nánari upplýsingum frá Kína þar sem ýmislegt sé óljóst. Hann segir að á þessu stigi hafi ekki verið haft formlegt samband við framleiðendur hérlendis.
Íslendingar hafa meðal annars haft leyfi heilbrigðisyfirvalda í Kína til að flytja þangað afurðir bæði úr villtum fiskstofnum og eldisfiski.