„Hvað er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu? Er andstaðan þar innan dyra við einkaframtakið svo svæsin að ekki megi leysa mjög svo djúpstæðan vanda sem lengi hefur verið viðvarandi í þessum efnum?“ sagði Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins í ræðu undir liðnum störf þingsins í dag.
Tilefni ræðunnar var frétt Morgunblaðsins í dag um harða gagnrýni forsvarsmanna sjálfstæðra heilbrigðisfyrirtækja á ráðherra og stjórnvöld fyrir að láta kreddu koma í veg fyrir að öll úrræði séu nýtt í kórónuveirufaraldrinum.
„Þar segjast þau Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns, og Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, vera hissa á að þau hjúkrunarúrræði sem þau hafa boðið séu ekki virt viðlits af stjórnvöldum. Á sama tíma og liðlega 100 sjúklingar sitja fastir á Landspítala, standi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir með tilbúin sjúkrarúm ónýtt á hliðarlínunni,“ segir Karl Gauti í ræðu sinni.
Þá sagði Karl Gauti öllu stórgrýti sem fyrirfinnst er staflað í veg fyrir einkaframtakið þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Einnig segir hann að frjálsum félagasamtökum sé markvissst úthýst í heilbrigðismálum.
Karl segir þvermóðsku stjórnvalda stýra því að ekki séu framkvæmdar fleiri aðgerðir hér á landi en raun ber vitni, þær aðgerðir sem keyptar eru af erlendum aðilum sé vel hægt að framkvæma hér á landi með minni tilkostnaði.
„En stjórnvöld heilbrigðismála telja betra að greiða erlendum einkaaðilum fyrir þær þó að það sé margfalt dýrara en að gera þessar aðgerðir á einkastofum hér á landi,“ sagði Karl.