Mannréttindamaðurinn missir prófið ævilangt í níunda sinn

Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. mbl.is/Hallur Már

Dómur féll í Landsrétti í liðinni viku í máli ákæruvaldsins gegn Guðmundi Andra Ástráðssyni fyrir akstur undir áhrifum ávanalyfja, brot á vopnalögum í tvígang og fyrir hylmingu með aðra byssuna í málinu. Málið vekur meiri athygli en ella þar sem hinn seki er sá sami og áfrýjaði máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) vegna skipunar dómara í Landsrétt.

Guðmundur Andri var á föstudag sl. sakfelldur fyrir að hafa ekið pallbíl próflaus á Stokkseyri, ófær um akstur vegna kókaínneyslu. Þá var hann sakfelldur fyrir vopnalagabrot með því að hafa tvívegis haft haglabyssu í fórum sínum, án þess að hafa skotvopnaleyfi og í síðara skiptið ennfremur verið undir áhrifum amfetamíns, kókaíns, metamfetamíns, alprazólams, klónazepams og nítrazepam.

Geymdi byssurnar undir sófa

Því til viðbótar var hann líka dæmdur fyrir hylmingu haglabyssunnar, sem við sögu kom í síðara skiptið, þar sem honum hafi mátt ljóst vera að hún var þýfi. Í báðum tilvikum geymdi hann haglabyssurnar undir sófa inni í stofu, í sitt hvoru húsnæðinu, án umbúða eða þannig að hann gæti ábyrgst að óviðkomandi kæmist ekki í byssuna.

Guðmundur Andri játaði vopnalagabrotin skýlaust fyrir héraðsdómi, en neitaði sök um akstur undir áhrifum, þó lögregluþjónar hafi staðið hann að verki við akstur um miðja nótt á Stokkseyri, en tvennt annað var í bílnum. Hann var fyrir sviptur ökuréttindum ævilangt, en reyndi að láta líta svo út að kona, farþegi í bílnum, hafi verið ökumaðurinn.

Sviptur ökurétti ævilangt í níunda sinn

Með dómi Landsréttar var meðal annars dæmt um umferðarlagabrot hans samkvæmt nýjum umferðarlögum, sem tóku gildi eftir að hinn áfrýjaði dómur féll. Þau brot sem hann var sakfelldur fyrir framdi hann í október og nóvember 2017, fyrir dómsuppkvaðningu héraðsdóms í nóvember 2018, sem staðfestur var með dómi Landsréttar í nóvember 2019. Því var honum gerður hegningarauki eins og hegningarlög mæla fyrir um.

Við ákvörðun refsingar var meðal annars horft til sakaferils Guðmundar Andra. Hann hefur 14 sinnum verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi og nær sakaferillinn aftur til ársins 2005. Eru dæmdar fangelsisrefsingar hans rúmlega 6 ár samtals, allt saman óskilorðsbundið, fyrir margvísleg brot, en allt frá árinu 2007 hefur hann aðeins verið sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana-og fíkniefni. Til þessa hafði hann átta sinnum verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

Refsing hans að þessu sinni var ákveðin fangelsi í átta mánuði, auk þess sem hann var í níunda sinn sviptur ökurétti ævilangt. Honum var gert að greiða allan áfrýjunarkostnað og laun verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, hrl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert